Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2010, Síða 30
30
umfram það sem hann samdi og hefur skrifað, en skoðar svo
bara skrif sín langa lengi fram og til baka, bætir við hér en strok-
ar út annars staðar, er ekki réttara að kalla slíkan mann rithöf-
und, ræðu- eða lagaskrifara?
Fædros: Hvað annað?40
Greinilegt er að Platon vill koma höggi á Ísókrates í þessum kafla, og gera
skólastarf hans, sem svo mjög byggðist á kennslu í ritsmíðum og hinu rit-
aða máli, óæðra samtalslist Akademíunnar. Hins vegar má ekki gleyma því
að Platon setur skilgreininguna fram í rituðu máli en hefur fágað mál sitt
til þess að líkja eftir lifandi samræðu sem er alls ekki það sama og lifandi
samræða í raun. og þessi skilgreining á fílosófíu þrengir síður en svo merk-
ingu orðsins, allir sem geta skrifað góðan texta geta líka betrumbætt skrif
sín með því að ræða um þau. Það er líka áhugavert að samkvæmt Sókratesi
Platons er fílosófía ekki sófía, eða speki, sem hann lítur á sem nánast guð-
dómlegan eiginleika sem ekki gefst dauðlegum mönnum. Fyrri liðurinn í
orðinu, fílo-, að skilningi Sókratesar Platons, virðist því settur fyrir framan
síðari liðinn, -sófía, til þess að takmarka, draga úr krafti hans, nánast til
þess að undirstrika að um viðleitni sé að ræða, iðkun og sókn eftir sann-
leika sem ekki hafi náðst, geti kannski aldrei náðst. Fílosófi er þá sá sem
ræðir og athugar, betrumbætir stöðugt og endurskoðar fyrri ummæli,
skrifuð ummæli. Enginn verðskuldar að heita fílosófi vegna þess sem hann
hefur skrifað, jafnvel þótt hann endurskrifi og lagi skrifin til aftur og aftur
– ekki nema hann sé þá tilbúinn til þess að ræða um textann, betrumbæta
hið skrifaða orð í samræðu hins talaða orðs, sýna bókstaflega fram á að hið
skrifaða orð sé ósatt. Að uppfylltum þeim skilyrðum hefur Sókrates það
eftir Músunum sjálfum að ræðuhöfundurinn Lýsías, söguljóðaskáldið
Hómer og lagasmiðurinn Sólon séu allir fílosófar eða vísyndismenn. En
fílosófi sem skrifar má aldrei verða of ánægður með það sem hann skrifar,
aldrei telja sig speking eða vitran út á skrif sín. Fílosófía er þannig verðandi
viska, ekki orðin speki.
Fornaldarmenn eru á einu máli um að fílosófía er ekki fræðigrein heldur
afstaða til þekkingar, þrotlaus viðleitni til að öðlast hana. Sú skilgreining á
fílosófíu sem lá til grundvallar á rómverskum tímum og á miðöldum kemur
fyrir í latnesku samræðunni Um skyldur eftir rómverska málafærslu- og
stjórnmálamanninn Cicero:
40 Fædros 278c–d.
Gottskálk Jensson