Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2010, Síða 32
32
speki“ var smíðuð úr Weltweisheit eða den verdslige Visdom á grundvelli
Fyrra bréfs Páls til Korintumanna 1.19. Þess vegna merkir latneska orðið
philosophia enn vísindi – í víðasta skilningi – þegar útskrifaðir eru doctores
philosophiae frá Háskóla Íslands í rafmagnsverkfræði, læknisfræði, íslensku
og bókmenntafræði. Þá er náttúrlega ekki verið að útskrifa „heimspek-
inga“.
Rétt eins og heiti Hins íslenzka bókmenntafélags mótaði skilning manna
á merkingu 18. aldar nýyrðisins „bókmenntir“, hefur önnur mikilvæg
menningarstofnun á Íslandi, heimspekideild Háskóla Íslands, mótað skiln-
ing síðari tíma manna á 18. aldar nýyrðinu „heimspeki“. Heimspekideildin
gamla var stofnuð um leið og Háskóli Íslands árið 1911. Í upphafi voru
tvær aðrar deildir í háskólanum, lagadeild og guðfræðideild, og síðar bætt-
ist við læknadeild. Í heimspekideild Háskóla Íslands voru kenndar ýmsar
greinar, s.s. norræn fræði eða bókmenntir til magistersprófs og heim-
spekileg forspjallsvísindi (sem voru inngangur að vísindum og fræðum og
ólík „fílunni“ sem fyrst var byrjað að kenna á 8. áratug síðustu aldar).
En síðar var tekin upp í heimspekideild kennsla í fjölda annarra greina:
eðlisfræði, landafræði, stærðfræði, sálarfræði og uppeldisfræði, sem sýnir
ágætlega að fram yfir miðja 20. öld merkti íslenska orðið „heimspeki“
almenn vísindi önnur en guðfræði, læknisfræði og lögfræði.
Árið 1971 verða svo þáttaskil í merkingarsögu hugtaksins „heimspeki“
því þá bætist við heimspekideild ný kennslugrein, nefnd „heimspeki“.43 Í
skrifum kennara í þessari nýju kennslugrein var orðið „heimspeki“ notað á
nýjan og mun afmarkaðri hátt, sem breytti merkingu orðsins á þann veg
sem þá hafði sjálfa ekki órað fyrir. Í orðinu „heimspekideild“ fólst nefni-
lega ekki neitt yfirlæti af því deildin hýsti ýmsar almennar vísindagreinar
og var alltaf opin fyrir nýjum. En þegar tekið var að nota þetta víða heiti
um eina kennslugrein, og þar að auki að kalla þá „heimspekinga“ sem
ástunduðu greinina, var ekki laust við að notkunin væri orðin dálítið stór-
sé möguleg, en samanburð við frumtexta skortir til þess að sýna fram á að þessi orð
séu í raun tilraun til þýðingar á philosophia.
43 Þótt stundum heyrist að þeir félagar Guðmundur Finnbogason (1873–1944) og
Ágúst H. Bjarnason (1875–1952) hafi lært og lagt stund á „heimspeki“ var það
aðeins í hinum gamla og víða skilningi, því báðir höfðu þeir „sálfræði“ sem aðal-
grein, sem þá var ný og upprennandi vísindagrein, í námi sínu við Hafnarháskóla.
Einn helsti kennari þeirra, Alfred Lehmann, var verkfræðingur að mennt, og
greinin hneigðist heldur í tilraunavísinda- en hugvísindaátt. Ágúst varð síðar pró-
fessor í „heimspeki“ við Háskóla Íslands en það var í sömu merkingu og orðið
hafði í deildarheitinu, þ.e. „ýmis vísindi“.
Gottskálk Jensson