Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2010, Page 37
37
Gunnar Harðarson
Skýin og Málsvörn Sókratesar
I
Málsvörn Sókratesar er yfirleitt skipað á bekk með elstu ritum Platons. Því
fylgir gjarnan að hún er talin skrifuð stuttu eftir réttarhöldin yfir Sókratesi
og gefa allglögga mynd af þeirri varnarræðu sem Sókrates flutti sjálfur
frammi fyrir kviðdómendum í Aþenu árið 399 f.Kr. Segja má að þetta hafi
löngum verið hin viðtekna skoðun, enda má sjá hana í flestum almennum
ritum um þessi efni, heimspekisögum jafnt sem uppsláttarbókum og inn-
gangsritum. Sigurður Nordal tekur til dæmis undir þessa skoðun og færir
nokkur rök fyrir henni í inngangi sínum að íslensku þýðingunni á
Málsvörninni. Hann segir:
Málsvörn Sókratesar og Krítón er Platón oftast talinn hafa fært í
letur skömmu eftir líflát Sókratesar. Þau rit eru vafalaust samin
til þess að opna augu Aþenumanna, sýna þeim, hvernig Sókrates
var í raun og veru og hve herfilega dómurum hans hafði
skjátlazt. Þau eru því varnarrit. En er því þá treystandi, að þau
séu sannleikanum samkvæm? Mikið af gildi þeirra veltur á því,
hvernig þeirri spurningu verður svarað.1
Hér þarf reyndar að halda aðgreindum tveimur mikilvægum atriðum, ann-
ars vegar tímasetningunni og hins vegar tilgangi ritsins og þar með bók-
menntagrein þess. Það er fyrst og fremst síðara atriðið, eðli Málsvarnarinnar
sem varnarrits, sem gæti valdið vandkvæðum að dómi Sigurðar þegar
kemur að því að leggja mat á sannleiksgildi hennar og trúverðugleika.
Tímasetningin virðist gefin. Að vísu gengur Sigurður þess ekki dulinn að
hér getur ýmislegt verið málum blandið. En hann svarar spurningunni um
sannleiksgildi Málsvarnarinnar með eftirfarandi hætti í framhaldinu:
1 Sigurður Nordal, „Inngangur“, í Platón, Síðustu dagar Sókratesar, Reykjavík: Hið
íslenska bókmenntafélag, 1983, bls. 18–19.
Ritið 3/2010, bls. 37–53