Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2010, Side 43
43
ingar um gildi þessara rita sem sögulegra heimilda því að margt er þar
ólíkt. Sem dæmi má taka frásögnina af aðalvitni Sókratesar í Málsvörninni
hjá Platoni, sem er Appollon, eða guðinn í Delfum, en hann hélt því fram
fyrir munn véfréttar sinnar að enginn maður væri vitrari en Sókrates. Hjá
Platoni er frásögnin á þessa leið:
[Kaírefón] fór einu sinni til Delfa og dirfðist að leggja þessa
spurningu fyrir guðinn […] hvort nokkur maður væri vitrari en
ég. Völvan svaraði því, að enginn væri mér vitrari. (36)
Hjá Xenofon er sama atviki lýst með þessum hætti:
Eitt sinn þegar Kaírefón spurði í Delfum um mig í viðurvist
margra, svaraði Appollon að enginn maður væri frjálsari, réttlát-
ari eða hófstilltari en ég.14
Hér ber nokkuð í milli, þótt báðar heimildir séu samdóma um ferð
Kaírefóns til Delfa og að hann hafi lagt spurningu fyrir véfréttina. Nú er
auðvitað ekki þar með sagt að Xenofon fari rétt með en Platon rangt. En
munurinn sýnir að í meðförum þessara tveggja ólíku höfunda verða
atburðirnir og ummælin ólík og ljóst að eftirleikinn, þá tilraun Sókratesar
til að komast að því hvort einhverjir væru vitrari en hann sjálfur, hefði tæp-
ast verið hægt að rekja með þeim hætti sem Platon gerir ef Xenofon hefði
átt í hlut.15
Ein athyglisverðustu rökin gegn því að um sé að ræða sömu ræðu og
Sókrates flutti fyrir dómstólnum felast í því að benda á hversu vel skrifuð
og samsett ræðan er, bæði í einstökum hlutum og í heild sinni.16
Bókmenntalegt eðli ræðunnar stríðir þannig gegn því að hún sé óbreytt
ræða Sókratesar, því að hann skrifaði ekki neitt, var maður hins talaða
orðs, en ekki rithöfundur eins og Platon.17 Lítum aðeins nánar á þetta. Í
inngangi að ræðunni segir Sókrates (29–30):
14 Xenophon, „Apology of Socrates to the Jury“, bls. 12.
15 Hér verður ekki rætt frekar um muninn á Sókratesi Platons og Xenofons; sjá um
þetta Louis-André Dorion, „Xenophon’s Socrates“, A Companion to Socrates, ritstj.
Sara Ahbel-Rappe og Rachana Kamtekar, oxford: Blackwell, 2006, bls. 93–109.
16 „The most conclusive proof that Plato, when writing his Apology, did not feel
bound to stick as closely as possible to the main lines of what Socrates had actually
said in court is, in my eyes, its exceptional literary quality“ (Strycker og Slings,
„Plato’s Apology of Socrates“, bls. 76).
17 Morrison, „on the Alleged Historical Reliability of Plato’s Apology“, bls. 104.
SKýIN oG MÁLSVöRN SÓKRATESAR