Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2010, Page 47
47
legu ferli, áður en til sjálfra réttarhaldanna kom, þar sem kviðdómurinn
taldi 501 mann.25 Mikið valt því á orðalagi ákærunnar sjálfrar.
Eftir því sem segir hjá Diogenes Laertiosi (um 250 e.Kr.) var ákæran
svohljóðandi:
Meletos Meletosson úr Pitþos-hverfi hefur fært þetta til bókar
gegn Sókratesi Sófroniskossyni úr Alopeke-hverfi og lagt eið að:
Sókrates er sekur um að [a] viðurkenna ekki þá guði sem borgin
viðurkennir og um að [b] kynna til sögunnar nýjar vættir og
sekur er hann um að [c] spilla æskulýðnum.26
Diogenes heldur því fram að ákæran hangi enn uppi í Aþenu á hans
dögum, en hjá Xenofoni má reyndar finna nánast sama orðalag (Memorabilia,
1.1.1). Hjá Platoni eru ákæruatriðin þau sömu en röð ákæruliðanna önnur.
Þau má sjá í Evþýfroni auk Málsvarnarinnar.
Í Evþýfroni er Sókrates sakaður um að „spilla ungdóminum“ og hann
nefnir „vankunnáttu“ sína sem eina ástæðu þess (2c). Þegar hann er beðinn
um að útlista ákæruna nánar segir hann um Meletos: „Hann segir mig vera
guðasmið; hann sakar mig um að búa til nýja guði og trúa ekki á hina
gömlu. Þetta eru ástæður hans fyrir sakargiftunum, segir hann“ (3b).
Evþýfron túlkar þetta svo að það sé vegna þess að Sókrates segi „aftur og
aftur að guðdómlegan sagnaranda beri fyrir“ sig (3b).27 Samkvæmt
Evþýfroni er Sókrates því kærður fyrir að (c) spilla æskulýðnum, (b) finna
upp nýjar vættir og (a) afneita guðum borgarinnar.
Í Málsvörninni skiptir Sókrates ákærunni á hendur sér í tvennt, það sem
hann kallar fyrri sakargiftir og síðari sakargiftir. Það eru einungis síðari
sakargiftirnar sem svara til ákæru Meletosar og félaga og þær eru þannig:
Sókrates gerir illt verk, þar sem hann bæði [c] spillir æskulýðn-
um og [a] trúir ekki á guði borgarinnar, [b] heldur á aðrar nýjar
andlegar verur. (42)
Fyrri sakargiftirnar eru hins vegar sá orðrómur eða rógburður sem gengið
hefur um Sókrates og er að hans dómi bakgrunnurinn fyrir hinni opinberu
ákæru Meletosar. Fyrri sakargiftirnar eru settar fram á tveimur stöðum:
25 Brickhouse og Smith, Plato and the Trial of Socrates, bls. 75–76.
26 Plato and the Trial of Socrates, bls. 10.
27 Hér er stuðst við óbirta þýðingu á Evþýfroni eftir Kristján Guðmundsson og Elmar
Geir Unnsteinsson.
SKýIN oG MÁLSVöRN SÓKRATESAR