Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2010, Page 49
49
ýmsum sökum gegnum tíðina og þær myndi bakgrunninn fyrir ákærunni
sem Sókrates þarf að verja sig gegn. Ákæran gengur að vísu lengra en bak-
grunnurinn, því að í henni er Sókrates bæði sagður guðlaus og nýtrúar-
sinni auk þess sem hann spilli æskulýðnum – þá væntanlega með þeim
hætti.
Í stuttu máli sýna fyrri sakargiftirnar Sókrates fyrst og fremst sem nátt-
úruspeking (brýtur heilann um þá hluti, sem eru í háloftunum og undir
jörðinni) og sófista (gerir verra málstað að betra og kennir öðrum slíkt hið
sama). Seinni sakargiftirnar draga Sókrates auk þess fram sem spillingarafl
í borginni (spillir æskulýðnum) og guðleysingja (trúir ekki á guði borgarinn-
ar), sem kemur þó fram með einhvers konar nýtrúarstefnu (kennir trú á
nýjar andlegar verur).
Við höfum séð að fyrri sakargiftirnar endurspeglast að minnsta kosti í
Skýjunum ef þær eru þá ekki sóttar þangað. En hvað með þær síðari? Ef
Skýin eru lesin kemur í ljós að öllum sakargiftunum, bæði þeim fyrri og
þeim síðari, má finna stað í skopleik Aristófanesar.28 Hvers vegna segir
Sókrates þá ekki að síðari sakargiftirnar megi líka rekja til Skýjanna, fyrst
þær eru þar? Hvað er hann að breiða yfir? Skipta Skýin kannski meira máli
fyrir Málsvörnina en höfundur hennar vill vera láta?
IV
Söguþráður Skýjanna er í stuttu máli á þessa leið.29 Karlinn Strepsiades
sefur ekki fyrir áhyggjum vegna þess að hann á von á rukkurum til að inn-
heimta skuldir sem sonurinn Feidippides hefur stofnað til vegna kaupa á
veðhlaupahestum. Strepsiades leitar leiða til þess að komast hjá því að
borga og snýr sér til Hugveitu Sókratesar, því að hann hefur heyrt að þar
geti menn lært að kjafta sig út úr öllum vandræðum. Sókrates birtist fyrst í
körfu þar sem hann er að skoða háloftin, en fölleitir og mjóslegnir læri-
sveinar hans rýna ofan í jörðina. Sókrates segir Strepsiadesi frá því að
28 Michael C. Stokes bendir á einum stað á sambandið milli ákærunnar í Málsvörninni
og Skýjanna: „The twin clauses of the religious indictment tie in well with
Aristophanes’ portrayal. […] Indeed the whole indictment hangs together as a
reflection of Aristophanes’ Clouds. The denial of the normal gods, the worship of
novel ones, the corruption of the young by teaching them this new religion, add
up to a sketch of the play’s principal character“ („Introduction“, í Plato, Apology,
útg. Michael C. Stokes, Warminster: Aris and Phillips, 1997, bls. 12).
29 Aristófanes, Skýin: Skopleikur, þýð. Karl Guðmundsson. Óútgefið leikhandrit,
varðveitt á bókasafni LHÍ, Sölvhóli.
SKýIN oG MÁLSVöRN SÓKRATESAR