Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2010, Side 50
50
Seifur sé ekki til, hins vegar geti hann vegsamað Skýin (sem kórinn í verk-
inu leikur) en þau megi rekja til Hvirfilvinds. Strepsiadesi ferst lærdóm-
urinn illa úr hendi, en í staðinn sendir hann soninn, Feidippides, í læri til
Sókratesar. Þar verður hann vitni að rökræðu Rétts og Órétts sem hafnar
því að réttlæti sé til og ber á endanum sigurorð af Réttum. Þegar Feidippides
kemur úr skólanum eru rukkararnir reknir burt með þeim rökum að
Strepsiades hafi svarið við Seif, en hann sé ekki til, og því séu loforð hans
um endurgreiðslu ógild. En gamanið tekur að kárna fyrir Strepsiadesi
þegar Feidippides tekur að lúberja hann og styður það þeim rökum að
Strepsiades hafi barið Feidippides í bernsku vegna umhyggju fyrir honum,
og tvisvar verði gamall maður barn. Þegar hann hótar í lokin að berja
móður sína og kveðst munu færa gild rök fyrir því er Strepsiadesi nóg
boðið, og hann ræðst ásamt þrælum sínum á Hugveitu Sókratesar og
brennir hana til grunna. Hvort Sókrates og Kaírefón drepast þar í rústun-
um eða ekki, veltur á túlkun orðalagsins, sem virðist reyndar benda til þess
að þeir flýi burt.30
Eins og ljóst má vera er engu líkara en sakargiftirnar í Málsvörninni séu
beinlínis unnar upp úr efnisatriðum Skýjanna. í Skýjunum er Sókrates lát-
inn vera að skoða það sem er uppi í loftinu og a.m.k. lærisveinar hans
skoða það sem er undir jörðinni. Í Skýjunum er hann líka látinn kenna rök
með og móti og kenna öðrum það fyrir borgun („gerir verra málstað að
betra“ og „kennir öðrum slíkt hið sama“) og góðu rökin og vondu rökin
eru meira að segja persónur í leikritinu (Réttur og Óréttur) og fara í hár
saman; lærisveinninn, sem sendur er til hans í því skyni að læra að tala um
fyrir mönnum með því að beita brögðum svo að Strepsiades losni úr klóm
handrukkara, endar á að berja föður sinn og réttlætir það með rökum
(„spillir æskulýðnum“). Sókrates er einnig látinn neita því að Seifur sé til
(„trúir ekki á guði borgarinnar“), en kynna Skýin eða Hvirfilvind sem ný
átrúnaðargoð („aðrar nýjar andlegar verur“). Í Málsvörninni sjálfri er þetta
atriði hins vegar allt mjög óljóst og tengt við sagnarandann sem heldur
aftur af Sókratesi þegar hann er að fara að gera einhverja vitleysu.
Skýin varpa því nýju ljósi á sakargiftirnar og ákæruatriðin í Málsvörninni.
Það eru ekki bara fyrri sakargiftirnar sem teknar eru upp úr Skýjunum,
30 Eins og sjá má eru Skýin að einhverju leyti sambærileg við Spaugstofuna, eins og
við þekkjum hana, þar er verið að gera grín að spekingum og Sókrates tekinn fyrir,
þótt hann þurfi ekki endilega að vera raunsönn eftirmynd hins raunverulega
Sókratesar, ekki frekar en persónur Spaugstofunnar eru nákvæmlega eins og fyrir-
myndirnar.
GunnaR HaRðaRson