Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2010, Page 59
59
meðal „módernistinn“ Jürgen Habermas, deildu hart á Derrida fyrir að
vilja smætta heimspeki niður í díalektík og/eða bókmenntir sem gætu þá
ekki höndlað Merkinguna, en með því væri sjálfræði heimspekinnar stefnt
í voða.9 Gagnrýni á aðferðafræði Derrida rénaði er fram liðu stundir, en
fyrir því er enginn fótur að hann hafi ætlað sér að þagga niður í rödd heim-
spekinnar. Hann var þó sannarlega uppteknari af „sann-leik“ en Sann-
leikanum. Í afbyggingu fólst að lesa heimspeki af ýmsum toga af mikilli
nákvæmni, blása í hana lífi og kanna hvað rödd hennar hefði í sumum til-
vikum breitt yfir og hafnað. Þótt afbygging afhjúpaði mótsagnir frum-
spekinnar og orðræðunnar lagði Derrida ávallt áherslu á að hún fæli í sér
frelsandi væntingar eftir hinu óorðna.
Ýmsir hugsuðir, fræðimenn og heimspekingar hugsuðu á svipuðum
nótum og Derrida, eins og Cixous, Gilles Deleuze og Michel Foucault.10 Í
einfaldaðri mynd fólst gagnrýni póststrúktúralismans í því að hafna
Sannleikanum, hinum eina sannleik heimspekinnar, og sýna fram á að
texti, allur texti, væri háður leik (retórík). Sannleikurinn, Uppruninn og
Merkingin færðust með öðrum orðum stöðugt undan í leik tungumálsins.
Þannig skrapp táknmiðið undan táknmynd sinni og kom í veg fyrir að
Táknið (táknmynd og táknmið) fullkomnist í endanlegri merkingu.
Í bókinni Points de suspension heldur Derrida því fram að hefðbundin
heimspeki gangist ekki við því að hún sé skráð og skrifuð, að það sé nánast
eins og hún telji sig búa í algildu og gagnsæju tungumáli.11 Heimspekin
hafi hafnað tungumálaatburðum í orðræðu sinni, rithætti síns eigin nafns,
tungumáli sínu og kringumstæðum í nafni hins almenna. Þessi afneitun
jafngildi því að stöðva og koma í veg fyrir að eitthvað sem skráð er innra
með okkur komist upp á yfirborðið. Ef heimspekingurinn beitti sjálfan sig
ekki bælingu og afneitun mundi hann skrá eitthvað af eigin líkama og
tungumálareynslu sem hann er í miðjum klíðum að skapa með skrifum
sínum. Í stað þess hagi hann sér eins og hann hafi hvorki líkama né tungu-
mál. Derrida orðar þetta svo: „[…] þegar maður hefur gert sér grein fyrir
því að heimspeki geymir í sér eða er haldin tungumáli er skynsamlegast að
9 Jürgen Habermas, Lectures on the Philosophical Discourse of Modernity, Cambridge,
Mass.: MIT Press, 1987, bls. 181–182.
10 Hafa ber í huga að fræðimennirnir sem hér eru taldir upp litu ekki á sig sem „póst-
strúktúralista“ sem tilheyrðu ákveðnum skóla. Þeir notuðu hugtakið nær ekki
neitt, ekki frekar en hugtakið „póstmódernismi“.
11 Jacques Derrida, Points de suspension. Entretiens, París: Galilée, 1992, bls. 232. Sjá
einnig Cécile Hayez, „L’expérience de l’écriture“, Magazine littéraire 430 (apríl
2004), bls. 57.
Ó-oRðIð MILLI BÓKMENNTA oG HEIMSPEKI