Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2010, Side 62
62
reynsluna af þeim – og um leið hið pólitíska. Hugmyndir Derrida um bók-
menntir byggja á hugmyndum hans um refhverfan „veikan mátt“.
Um fjöllun um þessi refhvörf er að finna í riti Derrida, Voyous.18 Þar kemur
fram að styrkur lýðræðis byggist í ákveðnum skilningi á veikleika sem felur
í sér að lýðræðið verður aldrei endanlegt, kemst aldrei undan óvissunni og
hinu óákvarðanlega. Þessir þættir haldi hugtakinu opnu og lýðræði sé því
ávallt þegar komandi/verðandi. Um er að ræða styrk eða mátt sem er laus
við vald og valdatilburði, þ.e. „veikan mátt“.
Hugmyndir Derrida um Evrópu byggja á svipaðri hugsun: Verðandi
Evrópa snýst ekki um Evrópusambandið í núverandi mynd, eða hvernig
ýmsir hópar eins og talsmenn ný-frjálshyggjunnar ímynda sér það. Hin
„verðandi Evrópa“ er enn að leita að sjálfri sér innan landfræðilegra marka
sinna og utan þeirra. Derrida taldi að Evrópa þyrfti að gangast við ábyrgð
sinni í nafni framtíðarinnar, í nafni alþjóðalaga. og hann skirrtist ekki við
nota orðasambandið „við Evrópumenn“ til að árétta það.
Markmiðið væri ekki að gera Evrópu að risaveldi í hermálum í þeim til-
gangi að vernda markaði sína eða mynda mótvægi við aðrar valdablokkir.
Evrópa ætti að móta stjórnmál sem leystu hnattvæðingu af hólmi með því
að umbreyta hugmyndum um fullveldi og alþjóðalög. Hún ætti að gegna
verðandi hlutverki, vera óháð NATo og Sameinuðu þjóðunum, en í því
felst að hún ætti vera herveldi sem væri hvorki árásargjarnt né varnarsinn-
að. „Evrópa“ ætti að vera vopnuð og reiðubúin að fylgja eftir ályktunum
(t.d. nýrra og betri Sameinuðu þjóða) af brýnni nauðsyn. Með þessu var
Derrida ekki að segja að varpa ætti hugtökum eins og fullveldi fyrir róða;
fullveldið gæti t.d. gagnast til að veita ákveðnum öflum heimsmarkaðarins
mótspyrnu. Það sem honum gekk til var að benda á að bæði þyrfti að
vernda evrópska arfleifð og bæta hana. Lýðræðið er evrópsk hugmynd, en
það hefur eins og áður sagði aldrei verið fullkomið og er því ávallt verð-
andi.19 Það sama má segja um réttlæti; það er alltaf byggt á von – og það er
verðandi, óháð lagabókstafnum.20
Því var það fullkomlega rökrétt fyrir Derrida að setja afbyggingu í sam-
hengi við arfleifð marxismans þegar hann barðist gegn sigurvímu tals-
manna „lýðræðis-kapítalismans“ eftir lok kalda stríðsins. Hugmyndir
18 Sjá Jacques Derrida, Voyous, París: Galilée, 2003.
19 Jean Birnbaum, „Je suis en guerre contre moi-même“, viðtal við Derrida, Le
Monde, 12. október 2004.
20 Sjá Slavoj Žižek, In Defense of Lost Causes, London og New york: Verso, 2008, bls.
25.
IRma eRlInGsdóttIR