Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2010, Síða 63
63
Derrida um „lýðræðis-marxisma“ fela í sér væntingar um umbreytingar.
Hann gagnrýndi það sem Guy Debord nefndi „samfélag sýndarinnar“ (fr.
la société du spectacle)21 en það þrífst á hugsunarlausri neysluhyggju og
heimsvaldastefnu. Markmiðið var ekki að slíta marxisma úr tengslum við
nauðhyggju eða frelsunarhugmynd, eins og Louis Althusser22 og ýmsir
marxistar gerðu, heldur gera skýran greinarmun á þessum tveimur hug-
tökum. Það ætti heldur ekki að setja frelsunarhugmyndir marxismans í
frumspekilegt samhengi sem væri ávallt undirorpið afbyggingu.
Derrida lagði aftur á móti áherslu á að ekki væri unnt að afbyggja allar
væntingar eða hugmyndir um réttlæti. Í því fælust möguleikar marxismans
til að taka þátt í að endurhugsa lýðræðið. „Við erum erfingjar marxismans,
hvort sem okkur líkar það betur eða verr“ – sagði hann.23 og hann taldi að
öll arfleifð bæri í sér hvatningu til ábyrgðar: Arfleifðin er verkefni, ekki
skylda. Það þyrfti að gangast við ábyrgð og vera meðvitaður um skuldbind-
ingu gagnvart ákveðnum anda (fr. esprit) og minni sem rekja mætti til Marx
og marxisma.24 Þegar Derrida gaf út bók sína um Marx árið 199325 sem
andsvar við ný-frjálshyggjunni áttu sumir marxistar eins og Terry Eagleton
erfitt með að fallast á skyldleika afbyggingar og marxisma. Í þeirra augum
þjónar afbygging þeim tilgangi að draga vígtennurnar úr marxismanum og
minnka þar með pólitískan áhrifamátt hans með framúrstefnulegum texta-
hugmyndum. En þetta er ósannfærandi skilgreining á verkefni Derrida:
Hann beitti sannarlega óvanalegum aðferðum og rithætti í nálgun sinni,
en var eftir sem áður að vinna að skyldum markmiðum sem fólust í því að
brjóta upp á byltingarkenndan hátt staðnaðar heimspekilegar hugmyndir.
Derrida benti sjálfur á að gagnrýnin afbygging hefði ekki getað þróast án
þeirrar róttæku samfélagsgagnrýni sem felst í marxisma. Róttækni er alltaf
þegar hluti af afbyggingu. Í þeim skilningi er afbyggingin tengd marxisma,
ekki í formi flokksræðis eða kreddum kommúnistaflokka, heldur sem
vænting – sem hluti af hinu „verðandi lýðræði“.
21 Guy Debord, La société du spectacle [1967], París: Gallimard, 1996.
22 Sjá Louis Althusser, Pour Marx, París: Maspero, 1965.
23 Jacques Derrida, Spectres de Marx: L’état de la dette, le travail du deuil et la nouvelle
Internationale, París: Galilée, 1993, bls. 145.
24 Sama rit, bls. 149–153.
25 Sama rit.
Ó-oRðIð MILLI BÓKMENNTA oG HEIMSPEKI