Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2010, Blaðsíða 67
67
heldur að vera „villtu“. Hún notar „villur“ eða leyfir þeim að koma fram.
Tungumálið í textum hennar er ofur-virkjað. „Villurnar“ eru oft kveikjur,
uppgötvanir og verða jafnvel lykilatriði. Samhljóða orð (fr. homonymies) –
orð með ólíka merkingu og stundum ólíka stafsetningu en sem hljóma eins
– eru staður umskipta í verki hennar. Sama gildir um orðtök, málvenjur og
klisjur sem Cixous vinnur úr. Hún rótar í steinrunnum hugsanavenjum og
tuggum. Eftirfarandi dæmi er lýsandi: Cixous hefur endurskrifað og skráð
„villu“ inn í fasta orðasambandið „l’un et l’autre“ sem þýðir „hver og einn“
eða „báðir“. Hún setti „l’un“ í kvenkyn, „l’une“ („ein“ í stað „einn“).
orða sambandið „l’une et l’autre“ er ekki til í frönsku sem fast orðasam-
band. Það er augljóslega villa, en villa sem opnar á einhvers konar viðburð;
Cixous skráir kvenkynið inn í fast orðasamband, en að auki heyrist í
„l’une“, ef vel er hlustað, orðið „lune“ (sem þýðir „tungl“ á frönsku).
Þannig breytir Cixous sjónarhorninu því að jörðin verður „hinn“ (fr.
l’autre) – sem er umsnúningur á dæmigerðri hefðarröð því jörðin er al-
mennt yfirskipuð á meðan tunglið er undirsett.32
Cixous segist í einni bóka sinna skrifa „samkvæmt villu – samkvæmt
skil greiningu“ (fr. par erreur: par définition33). Hér kemur villan á undan,
en yfirleitt kemur skilgreiningin fyrst og villurnar eru síðan frávikin frá
skilgreiningunni. Í öðrum texta eftir Cixous er að finna svipað kjarnyrði
sem hljómar svona: „Penser? Échouer. Échouer: penser“34. Franska sögn-
in „échouer“ hefur þrjár meginmerkingar sem hér eru allar virkjaðar: í
fyrsta lagi að mistakast eða misheppnast; í öðru lagi að stranda; og í þriðja
lagi að enda eða hafna að lokum einhvers staðar. Þetta er gott dæmi þess
sem getur gerst í setningunni, hér og nú á síðunni. Í þessum afórismum
kjarnast sérstök siðfræði í skrifum Cixous. Ef skrifin eru fyrirfram njörvuð
niður, fyrirfram ákvörðuð (eða fyrirfram hugsuð/rétt), bíður þeirra eins
konar strand, endalok („Penser? Échouer.“). En strandið og/eða villan
32 Annað dæmi um orðaleik af þessu tagi er titill bókar Cixous, L’Ange au secret, sem
þýðir í beinni þýðingu „Engill leyndar“, „Engill leyndarmálsins“ eða „Engill í
laumi/í leynd“. Mörg orð hljóma eins eða mjög líkt og engill á frönsku, „ange“:
enjeu (veð/launveð), en jeux (leynileikur/feluleikur/leynispil), en je (í merkingunni
„í ég“ – eða það sem er í „ég“ – og merking titilsins væri þá leyndarmál ég-sins/eða
þess sem er í mér).
33 Hélène Cixous og Mireille Calle-Gruber, Photos de racines, París: Des Femmes,
1994, bls. 4.
34 Hélène Cixous, Jours de l’an, París, Des Femmes, bls. 55. Sjá einnig Mireille
Calle-Gruber, „L’Écrire-penser d’Hélène Cixous”, Du féminin, Québec: Les
Éditions Le Griffon d’argile, Collection Trait d’union, 1992, bls. 103.
Ó-oRðIð MILLI BÓKMENNTA oG HEIMSPEKI