Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2010, Síða 69
69
siðfræðileg tengsl frá öðrum tengslum milli manneskja (eins og t.d. tengsl
sjálfsins við sjálft sig eða við hlutveruleikann) er að þau falla ekki undir
flokka þekkingar eða viðmiðunar. Ómöguleiki þess að þekkja hinn leiðir til
tengsla sem eru byggð á viðurkenningu og virðingu. Í heimspeki Levinas
vega réttlætiskröfur þannig þyngra en þekkingarkröfur. Að dómi Derrida
er það að vera réttlátur að viðurkenna óendalega ábyrgð á sérstæði hins (fr.
la singularité de l’autre) sem eitthvað sem maður getur ekki ráðið yfir (eða
ákvarðað um) og eitthvað sem er hafið yfir skilning manns.
Allir textar geyma leyndarmál, þ.e. merkingargnótt sem við getum
aldrei þóst hafa tæmt. Derrida tekur sem dæmi verk rithöfundarins Pauls
Celan, en í þeim koma oft fyrir duldar tilvísanir í líf hans eða í verk annarra
höfunda. Þótt gert væri yfirlit yfir margræða merkingu textans er alltaf
eitthvað eftir, eitthvað umfram. Rýmið í ljóðum Celans er t.d. afar mikil-
vægt, en merking þess er óræð. Það eru ekki til neinar leiðbeiningar um
hvernig eigi að takast á við taktinn, braghvíldirnar, hljóðgöpin og rofin í
ljóðunum.40
Derrida segir verk Cixous vera í „skildaga“ (viðtengingarhætti) eða jafn-
vel í „sjálfskildaga“. Gjörningurinn sem verður í verkum Cixous er ekki í
nútíð, heldur í skildagatíð: „gæti ég“ – segir sögumaður. Þennan skildaga,
gæti-ég, setur Derrida upp sem öflugri gjörning en aðalsetningu verufræð-
innar „þetta er“. Hélène Cixous, segir Derrida, „lætur reyna á kraft þessa
„gæti ég“ í skrifum sínum og í einu vetfangi verður hið ómögulega mögu-
legt. Veruleikinn veitir hugarórum/draumórum viðtöku.“41
Bók Derrida H.C. pour la vie, c’est à dire… er að hluta til könnun á
endalausum rökræðum hans og Cixous. Þessar þrætur fjalla um það hvað
„dauðinn hyggst fyrir, djúpt inni í sjálfu lífinu, áður en endalokin renna
upp“, eins og Derrida orðar það. Í þessari rökræðu segist hann margsinnis
hafa þurft að minna hana á að við munum deyja – of snemma – að lokum:
Ég segi við hana [Cixous] að við endalokin deyjum við, en hún
trúir mér ekki. Hún veit, en hún trúir mér ekki. Ég hlýt að vera
fær um að trúa henni. Ég vildi þurfa að geta gert það sem ég get
ekki. Ef ég gæti trúað henni. Líkt og ég tryði henni. Líkt og.
Gæti ég?42
40 Jacques Derrida, „Poétique et politique du témoignage“, bls. 520 og 534.
41 Jacques Derrida, „H.C. pour la vie, c’est à dire…“, bls. 14.
42 Sama rit, bls. 14.
Ó-oRðIð MILLI BÓKMENNTA oG HEIMSPEKI