Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2010, Síða 80
80
bæði vísa til verknaðarins að kljúfa; vita sem þýðir að vera búinn að sjá,
angur sem hefur frummerkinguna þrengsli, hlakka sem merkir að æpa eða
hljóða, reiður sem merkti upprunalega snúinn, undinn, og svo má lengi telja.
Af þessu hefur verið dregin sú ályktun að orðaforðinn um hugarheiminn
hafi orðið til á einhverju forsögulegu stigi málsögunnar þegar menn gerð-
ust skyndilega skáldlegir og gripu til myndhvarfa til að lýsa hinum nýja
hugarheimi sínum í stað þess að búa til ný orð eins og þeir höfðu ávallt
gert fram að því. Þetta skáldlega tímabil hafi svo runnið sitt skeið á for-
sögulegum tíma, en tilhneiging til myndhvarfa hefur haldist í skáldamáli
allar götur síðan. Með öðrum orðum er það svo, eins og Barfield bendir á,
að því lengra sem við færum okkur aftur í tungumálasöguna finnum við æ
ríkari tilhneigingu til að tala í myndhvörfum, en samt ímyndum við okkur
að elsta stig tungumálsins sé fullkomlega hlutlægt og myndhvarfalaust.21
Þessi tilgáta finnst Barfield harla ólíkleg. Í staðinn tekur hann upp þráð-
inn frá Goethe og Coleridge og útskýrir þróunina með öðrum hætti.
Hefði hann fjallað um þessi íslensku hugtök hefði hann sagt að orðið rót
hafi frá örófi alda átt sér merkingarsvið sem felur í sér upphaf, undirstöðu,
orsök, og táknað heildrænt, dulrænt og andlegt samband rótarinnar við
jurtina. Seinna átti sér stað klofningur eða pólun í hugtakinu þegar mann-
kynið lærði að skoða jurtina sem mekaníska samsetningu sjálfstæðra hluta
án táknrænnar merkingar. Hið hlutlæga og vísindalega hugtak rót er því
seinna til komið, en var þó í fyllingu tímans skilgreint sem grunnhugtakið,
en rót sem orsök var hins vegar túlkað sem myndhvörf. Rót vandans er ekki
yfirfærð merking, heldur sú sem er upprunalegri. Á sama hátt hafi blóð
upprunalega verið líkamsvessi sem var birtingarmynd eðlis og andlegrar
gerðar manneskjunnar eða dýrsins. Þegar mannkyn tók að efast um að
þetta tvennt færi nauðsynlega saman fékk orðið blóð nýja merkingu og varð
að líffræðilegum líkamsvökva sem hægt var að skilgreina á tæmandi hátt án
dulrænnar eða andlegrar skírskotunar. En sú er alls ekki upprunaleg merk-
ing orðsins blóð. Það sama gerðist með hjarta og lifur, og með vindinn og
andardráttinn og guðlegan innblástur. Það sem við nú sjáum sem hina
óeiginlegu merkingu er í raun hin upprunalegri; hin „eiginlega“ merking
nútímans er seinni tíma afleiðing tvíhyggjunnar, aðgreining vitundarinnar
frá efnisheiminum.22
21 Sama rit, bls. 73.
22 Eðlilegt framhald þessarar rökræðu er að spyrja að hvaða leyti þessi tvíhyggja sé
æskileg þróun. En við skulum ekki fylgja Barfield á þessari braut að sinni, enda er
svar hans ekki einfalt.
PétuR knútsson