Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2010, Qupperneq 81
81
Er hægt að hugsa sér að orðið sannur hafi þróast á svipaðan hátt? Svo
virðist sem rót og blóð hafi öðlast sínar nýju merkingar í kjölfar vísindabylt-
ingar, með öðrum orðum þegar mannshugurinn tók upp á því að skilja
með afgerandi hætti á milli hugarheims og efnisheims. Því má spyrja: er
hægt að benda á álíka breytingar í hugarheimi manna sem kunna að hafa
leitt til klofnings í merkingu hugtaksins sannur, sem áður hefði haft heild-
ræna merkingu?
Svo vill til að Íslendingabók Ara, sem er rituð snemma á 12. öld, stendur
á miklum tímamótum í íslensku samfélagi, tímamótum sem gengu yfir á
mismunandi tímum hjá mismunandi þjóðum og eru ekki afstaðin enn. Hér
er átt við tilkomu ritmáls og breytinguna frá munnmennt í bókmennt.
Fræðimenn eins og Eric Havelock23 og Walter ong24 hafa bent á hve
erfitt það sé fyrir okkur sem búum við almennt læsi að skilja hugarheim
manna fyrir tilkomu ritmáls. Eitt merki þessa vanda sést strax í því að
okkur skortir orð og hugtök sem duga til að lýsa hugarheimi ólæss samfé-
lags. Ekki höfum við fengið þau í arf frá þeim tíma, því ritmálslaust samfé-
lag hafði ekki tilefni til að smíða slík hugtök, ekki frekar en að það þekkti
rafmagnsleysi eða talaði um að handmjólka kúna. Ólæst samfélag iðkar
skáldskap en telur hann ekki óritaðan; það skapar menntir en kallar þær
ekki munnmenntir. Hugtakið munnleg geymd, sem við notum til að lýsa
þessu fyrirbæri, þætti landnámsmönnum vafalaust óskiljanlegt rugl, því
viska og hefðir samfélagsins eru ekki geymsluvörur, heldur fylgja þær
manninum eins og sjálft tungumálið. orðið munnmennt hefur verið notað
í íslensku sem þýðing á hugtakinu orality hjá Havelock og ong, en þeir
þurftu hvor í sínu lagi að afsaka og útskýra þetta nýja heiti í löngu máli og
benda á að óhæft væri að tala um óritaðar bókmenntir eða illiterate litera-
ture.
Tilkoma ritlistar á Íslandi sem og annars staðar í Evrópu var í upphafi
mjög smá í sniðum, þróunin ávallt mjög hægfara, þannig að flest einkenni
munnmenntar héldu velli löngu eftir að hin nýja rittækni hafði skotið
rótum. Bæði Havelock og ong tala um tímabilið þar sem „ritiðn“ (e. craft
literacy) ríkti, samfélagið í heild var ólæst en fámenn stétt manna iðkaði
hina dularfullu nýju tækni.25 Elstu ritin veita okkur því innsýn í þetta
23 Eric A. Havelock, Preface to Plato, Cambridge, Mass.: Harvard University Press,
1963.
24 Walter J. ong, Orality and Literacy, London: Routledge, 2002 (1. útg. 1982).
25 Vert er hér að minnast á ritgerð Claudes Lévi-Strauss, „A Writing Lesson“, sem
lýsir á meistaralegan hátt afstöðu ólæss samfélags til hinnar dularfullu rittækni sem
LÖGHEIMILI SANNLEIKANS