Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2010, Qupperneq 90
90
tímum Ara var nýja rittæknin að skjóta rótum, og urðu bækur nytjagripir
eins og flestallt sem gert var af manna höndum. Tilkoma ritaðs máls gerði
það að verkum að samfélagið tók að skilgreina sig með nýjum hætti.
Hlutverki lögsögumannsins hnignaði eftir því sem lögð voru drög að
bókfestri greiningu og staðfestingu samfélagsins. Sem nytjagripur þurfti
Íslendingabók að vera sönn á sama hátt og borð verður að vera stöðugt, fata
vatnsheld og fatnaður skjólgóður; hún þurfti að skilgreina uppruna íslensks
samfélags á þann hátt sem best hæfði. orðin „skylt er at hafa þat, er sann-
ara reynisk“ lýsa afstöðu Ara til þess verks sem bókinni er ætlað að sinna.
Er unnt að þýða þessa hugsun á nútímaíslensku í stað þess að notast við
gömlu orðin? Tilraun til róttækari þýðingar gæti ef til vill hljómað svona:
En komi á daginn að miður sé einhvers staðar sagt frá í riti þessu,
þá er skylt að hafa það heldur sem kemur að meira gagni.
Hér er að vísu of langt hallað í hina áttina: með því að höfða eingöngu til
samfélagslegra væntinga tapast skírskotunin til æðri gilda, guðdómlega
skipulagsins sem Ari og Páll postuli heyrðu í orðinu sannur. Tvíhyggjan á
síðari öldum hefur svo rækilega klofið hið efnislega frá hinu andlega að
þau verða ekki sameinuð aftur í bráð, jafnvel þótt til séu orð sem eiga
heima í báðum helmingum okkar sundraða hugarheims: blóð, rót, hjarta,
andi, lög, heimild, sannleikur. Tungumálið sjálft spyrnir enn á móti tví-
hyggjunni. Sem oftar leitum við til þýðingarfræðinnar um lausnina.
Um álitamál sem upp koma þegar þýtt er milli náskyldra tungumála hef
ég ritað áður, og reynt að gera grein fyrir ummyndunum á smáatriðum í
ytra formi málsins, hljóðum og stöfum, sem verða til við slíkar þýðingar,
og áhrifum og gagnáhrifum sem þær hafa á merkingu bæði frumtextans og
þýdda textans.55 Vel þekkt birtingarform þessara áhrifa eru svokallaðir
„falskir vinir“, orð sem hafa svipað form í báðum tungumálum en mis-
munandi merkingu: allir vita að Færeyingar sofa undir dýnunni (sænginni)
í seinginni (rúminu) og furða sig á því að Íslendingar virðast sofa á sænginni
55 Sjá Pétur Knútsson, „Um þýðingu Halldóru B. Björnsson á Bjólfskviðu“, Skírnir
158, 1984, bls. 223–244; sami höf., Intimations of the Third Text, doktorsritgerð,
Det Humanistiske Fakultet, Københavns Universitet, 2004; sami höf., „The
Pointing Voice: How a Text Means“, Hugvísindaþing 2005, ritstj. Haraldur
Bernharðsson o.fl., Reykjavík: Hugvísindastofnun Háskóla Íslands, 2006, bls.
223–233; sami höf., „Náin kynni – nýtt líf. Þýðingar milli náskyldra tungumála“,
Frændafundur 6, Tórshavn: Fróðskaparsetur Føroya, 2008, bls. 65–73.
PétuR knútsson