Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2010, Qupperneq 92
92
– heldur er hann mun nær hinum æðri gildum sem Páll postuli nefnir:
hvaðeina sem satt er, hvaðeina göfugt. Fyrir Benjamin-Derrida felst sann-
leikur í þýðingum hvorki í frumtextanum né í þýdda textanum, heldur
glittir í hann af og til í sjálfu ferlinu sem hnýtir þá saman. „Sannleikurinn
væri fremur hið hreina mál þar sem merking og bókstafur verða ekki leng-
ur aðskilin“,60 þar sem vinir væru ekki lengur falskir, þar sem „anleıcr“
merkti einfaldlega „anleıcr“.
Ég játa fúslega að ég blanda hér saman gjóskulögum: annars vegar er
um að ræða þýðingu á sannleikshugtakinu hjá Ara, en hins vegar sannleik-
ann um þýðingu á sannleik. En þessi samsláttur er ekki ósannlegur, og
reyndar ekki óheimill, sérstaklega þegar auctoritas eða heimildargildi frum-
textans hangir á spýtunni. Því leitin að tungumáli sannleiks leiðir Benjamin
óhjákvæmilega á vit heilagrar ritningar, hinna endanlegu heimilda. og nú
dregur hann upp allsérstæða mynd til að lýsa eðli þýðingarinnar, sem
„umlykur inntak sitt eins og konungsskikkja með víðum fellingum“.61
Derrida grípur hér á lofti konungshugtakið og spinnur úr því skemmtilega
fléttu; hann hefur konunginn meira að segja nakinn undir kápu þýðingar-
innar,62 ósnertan og ósnertanlegan, sannleikann sem þýðingin nær ekki
að höndla. Hér er ekki á ferð útvatnað ævintýri burgeisanna um nýju klæði
keisarans, heldur goðsögnin sjálf í öllum sínum hátíðleik: nakinn líkami
konungs er hin holdtekna miðja ríkisins, þar sem sannleikurinn, lög og
samfélagsgildi eiga heima.
En í konungslausu íslensku samfélagi býr sannleikurinn sér ból í öðrum
líkömum: í framsögðum lögum, í fastmótaðri orðræðu á Alþingi. og svo
gerist það með tilkomu rittækninnar að hann fær nýjan samastað á bókfelli.
Lokaorð Benjamins í „Verkefni þýðandans“ falla fullkomlega að Íslendinga-
bók: „Því að í einhverjum mæli geyma öll mikil rit, einkum þó hin heilögu,
þýðingu sína í reynd (ihre virtuelle Übersetzung) milli línanna. Millilínuþýðing
hins heilaga texta er frummynd og kjörmynd alls þýðingastarfs.“63 Við
lesum Íslendingabók óþýdda, með konung fyrir konung og sannleik fyrir
sannleik; í reynd lesum við millilínuþýðingu hennar. Hún er sannarlega
60 Derrida, „Um turna Babel“, bls. 208.
61 Benjamin, „Verkefni þýðandans“, bls. 192.
62 „[…] undir víðum fellingunum, in weiten Faltern, grunar mann að hann sé nakinn“
(Derrida, „Um turna Babel“, bls. 207).
63 Benjamin, „Verkefni þýðandans“, bls. 201. Ástráður þýðir: „Því að í einhverjum
mæli geyma öll mikil rit, einkum þó hin heilögu, hugsanlega þýðingu sína óbeint
ritaða milli línanna“ (skáletrun mín), en fyrir minn smekk dregur hann of mikið úr
raunveruleik þeirrar millilínuþýðingar sem felst í orðinu virtuelle.
PétuR knútsson