Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2010, Page 95
95
Jón karl Helgason
Týndur í Turnleikhúsinu
Tilraun um völundarhús, veruleikasvið og tálsýnir
Inngangur
Sögusvið skáldsögunnar Turnleikhúsið (1979) eftir Thor Vilhjálmsson er
drungaleg dökkgrá leikhúsbygging sem minnir á Þjóðleikhúsið í Reykjavík.
Í upphafskaflanum stendur hávaxinn maður í mannþröng utan við húsið.
Að honum þrýstist ljóshærð kona í hvítri regnkápu en þegar hreyfing
kemst á mannfjöldann ýtast þau hvort í sína áttina. Hann berst að útidyr-
um leikhússins og inn að miðasölunni. Þar eru þrengslin slík og loftleysið
að það líður yfir einhverja en maðurinn er svo lánsamur að finna dyr inn á
breiðan ganginn þar sem fatageymslan er. Á leiðinni er hvíslað að honum:
„Farðu upp í turninn, og talaðu við Ólaf Davíðsson“.1 Það sem eftir er
sögunnar leitar maðurinn að leiðinni upp í turn en það er ekki fyrr en
undir lok verksins að hann nær áfangastað. Hann fer upp lóðréttan járn-
stiga, kemur inn í vélarrúm og klífur þaðan upp í „hringrými með skyggðu
gleri“ (200). Þar stendur marmarakista með áletruninni: „Hér hvílir Ó.D.,
ástmögur ljóðs og sagna“ (201) en við stall hennar liggja tveir boðsmiðar á
frumsýningu kvöldsins.
Leikhúsið í sögunni minnir að ýmsu leyti á erlendu hallirnar úr fyrstu
skáldsögum Thors, Fljótt fljótt sagði fuglinn (1968) og Ópi bjöllunnar (1970).
Í yfirlitsgrein um feril skáldsins segir Ástráður Eysteinsson að höll málar-
ans í fyrra verkinu sé ekki aðeins birtingarmynd „evrópsks menningararfs“,
1 Thor Vilhjálmsson, Turnleikhúsið, Reykjavík: Iðunn, 1979, bls. 9. Hér eftir verða
tilvitnanir í þessa heimild auðkenndar með blaðsíðutali í sviga í meginmáli.
Rannsóknir þær sem greinin byggir á voru unnar með styrk frá RANNÍS. Ég vil
þakka Hauki Ingvarssyni, Hermanni Stefánssyni og Inga Birni Guðnasyni, sem og
ritrýnendum og ritstjórum Ritsins fyrir yfirlestur og góðar ábendingar meðan
greinin var í smíðum.
Ritið 3/2010, bls. 95–116