Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2010, Page 101
101
legri upplausn. Eitraða handritið er hér ígildi Mínótársins í hjarta völ-
undar hússins, forvitni um innihald bókarinnar hefur reynst munkunum
banvæn. Vilhjálmur er að þessu sinni í hlutverki Þeseifs; hann forðast að
sleikja á sér fingurna þegar hann flettir síðum bókarinnar og kemst út úr
safninu ásamt Adso en handritið brennur þar inni ásamt Jorge og öllum
bókakosti klaustursins. Frá þessu sjónarhorni býður Nafn rósarinnar les-
endum sínum upp á klassísk sögulok í anda forngrísku sagnarinnar; hetjan
sleppur lifandi úr eldraun sinni en því fylgja þó vissulega fórnir (rit
Aristótelesar glatast).
Að mati Ecos tekur heimsóknin í klaustrið líka sinn toll af Vilhjálmi þar
sem hann áttar sig á því í rás sögunnar að heimurinn sem hann lifir í „hefur
nú þegar sköpulag rísóms, það er að segja, það er mögulegt að koma reglu
á hann en sú regla verður aldrei endanleg“.17 Hér vísar Eco í skrif frönsku
fræðimannanna Gilles Deleuze og Félix Guattari um rísóm (fr. rhizome) en
það hugtak er notað í grasafræði um jarðstöngul eða rótarknippi sem getur
spírað ofanjarðar eða myndað rætlinga neðanjarðar. Í inngangi bókar sinn-
ar Þúsund flekar (Mille plateaux, 1980) nota Deleuze og Guattari þetta nátt-
úrulega fyrirbæri sem myndhverfingu „fyrir margbreytileika og óendan-
lega samtengimöguleika allrar hugsunar, menningar og tungumáls“, svo
vitnað sé til formála Geirs Svanssonar að íslenskri þýðingu Hjörleifs
Finnssonar á þessum texta.18 Andstætt trénu á rísómið sér engan megin-
stofn eða skipulega formgerð. Í stað þess að vera samsett úr teljanlegum
fjölda afmarkaðra eininga felst rísómið í mergð og þéttleika, sérhver
punktur þess getur tengst hvaða öðrum punkti þess sem er, það getur rofn-
að hvar sem er og tekið upp þráðinn hvar sem er.
Til skýringar taka Deleuze og Guattari meðal annars dæmi af blómi
brönugrass sem líkist vespu og tekst þannig að lokka til sín slík dýr. Þegar
vespa sest á plöntuna er hún jafnframt „sjálf hluti af æxlunarfæri brönu-
grassins. En samtímis endursvæðir hún brönugrasið með því að flytja
frjókorn þess á milli staða. Vespan og brönugrasið mynda rísóm, að svo
miklu leyti sem þau eru misleit.“19 Annað dæmi sem skýrir formgerð rís-
17 Umberto Eco, Postscript to The Name of the Rose, bls. 58.
18 Geir Svansson, „Formáli“, Heimspeki verðandinnar. Rísóm, sifjar og innrætt siðfræði,
ritstj. Geir Svansson, Reykjavík: ReykjavíkurAkademían, 2002, bls. 9.
19 Gilles Deleuze og Félix Guattari, „Rísóm“, þýð. Hjörleifur Finnsson, Heimspeki
verðandinnar, bls. 27. orðið „endursvæðir“ er þýðing á franska orðinu reterriorial-
isation, sem merkir að koma einhverju fyrir á nýjum stað en það kallast á við
franska orðið déterriorialisation sem þýtt er með sögninni að „afsvæða“.
TÝNDUR Í TURNLEIKHÚSINU