Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2010, Page 105
105
ekki hvað; ég vissi, þótti mér: eitthvað bíður mín. Ólafur Davíðsson, hugs-
aði ég: einkennilegt. Hver var hann?“ (9–10).
Í næsta kafla fer maðurinn aftur út á ganginn, upp nokkur þrep og um
dyr inn á sviðsvænginn. Þaðan liggur þröngur hringstigi upp í myrkrið,
sem er svo svart að maðurinn veit ekki hvort hann skríður lárétt eða lóð-
rétt. Hann greinir ljósskímu, stígur upp á steyptan pall, krækir fyrir hálf-
vegg, kemur að mjóum dyrum en þar fyrir innan er kerti á gólfinu. Þegar
augun venjast myrkrinu sér hann að þarna inni eru tvær naktar konur og
nakinn, snoðrakaður maður. Önnur konan hefur orð á því hve komumað-
ur hafi verið lengi á leiðinni, hún hefur beðið þess að hann „kæmi til að
fylla tómið“, en hin konan er vonsvikin yfir því að hann hafi ekki haft með
sér reykelsi: „helvítis reykelsið,“ segir hún byrst. „Hvað þýðir þetta án þess
að hafa reykelsi?“ (14).
Enn sem komið er getur lesandinn staðsett atburði á grunnteikningu af
Þjóðleikhúsinu (við erum stödd í myrkum klefa einhvers staðar á annarri
hæðinni) en frá og með næsta kafla verður það stöðugt erfiðara. Ein ástæð-
an er sú að í stað þess að lýsa þeirri leið sem maðurinn fetar frá einni
vistarveru til annarrar skiptir Thor fyrirvaralaust um sögusvið. Í þriðja
kaflanum er maðurinn til að mynda aftur staddur á breiðum gangi á jarð-
hæðinni, nú innan um fjölda fólks. Helst lítur út fyrir að verið sé að æfa
leikverk sem gerast á að kvöldlagi í suðrænni stórborg. Skyndilega er þó
sem fólkið og leiktjöldin gufi upp, glaumur hins suðræna lífs sem borist
hefur af segulbandi hraðdvínar í hátölurunum og breytist í búddíska
möntru, „og þykkur reykurinn frá reykelsum gerði í ganginum þoku;
gegnum hana glóði seytlandi mánabirtið, appelsínugult“ (16). Maðurinn
þreifar fyrir sér í mistrinu og sér þá „sína eigin hönd synda sjálfstæða,
sniðna frá þéttum bólstrum reyks sem líkt og væri andað að honum sóttu
að afnema mynd hans; utan þessa hönd. og höfuðið þóttist hann bera ofar
ilmandi reyknum. Fann þó ilminn léttnuminn“ (16). Kaflanum lýkur á því
að þokunni léttir og slæður hennar svífa út um loftræstingarop inn í sjálfan
leiksalinn.
Svo merkilega vill til að Vilhjálmur og Adso verða fyrir áþekkri reynslu
og þarna er lýst fyrstu nóttina sem þeir kanna bókasafnið í Nafni rósarinn-
ar. Eftir að þeir hafa tapað áttum þar inni stendur Adso óvænt frammi fyrir
torkennilegri, risavaxinni mannsmynd sem gengur í bylgjum og flöktir til
eins og vofa. Drengurinn fyllist ofsahræðslu og vill taka til fótanna en
Vilhjálmur heldur ró sinni og útskýrir að um sé ræða undinn spéspegil. Úr
TÝNDUR Í TURNLEIKHÚSINU