Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2010, Síða 111
111
skera úr um hvor væri snjallari listamaður. Zeuxis afhjúpaði málverk af
vínberjum sem voru svo raunsæisleg að fuglar himinsins komu fljúgandi
og reyndu að kroppa í þau. Við þetta fylltist málarinn sigurvissu og bað
Parrhasíos um að draga tjöldin frá sinni mynd. Reyndust tjöldin þá vera
hluti af myndinni og varð Zeuxis að játa sig sigraðan.32 Sú tækni sem hér
um ræðir á sér langa hefð í veggmálverkum þar sem svo virðist sem
gluggar, dyr eða heilu salirnir blasi við þar sem í raun er tvívíður veggur.
Slíkar freskur hafa meðal annars varðveist í ítölsku borginni Pompei.
Síðar, meðal annars á tímum endurreisnar og barrokks, var þessari tækni
stundum beitt þegar loft voru máluð og látið líta út fyrir að yfir höfði fólks
væri gríðarstór hvelfing. Þá hefur lengi tíðkast að tálsýnum af þessum
meiði sé beitt í leikmyndum.33
Leiktjöldin sem maðurinn gengur fram á í þriðja kafla Turnleikhússins
eru skólabókardæmi um tálsýn, á þeim „var enginn gluggi nema málaður á
þau með ámáluðum speglum sem hvergi högguðust, hvergi rúða, hvergi
pollur; ekkert að spegla þína mynd“ (15). Þau eru þó fremur viðvanings-
lega gerð í samanburði við veggmálverkið sem söguhetja Turnleikhússins
uppgötvar andartaki síðar:
Hann þokaði sér til hliðar einsog hann mátti, að veggn-
um hinumegin, því nú var engin fatageymsla á þessum gangi.
og reyndar var veggurinn horfinn. Það var opið út í hið bláa
íslenzka kvöld; kyrrt með fullum mána, appelsínugulum og
kankvísum. Þarna úti. Það var klætt þunnu gagnsæju plasti
einsog kæmi utan af brauði dagsins. og í því voru bylgjur og
hrukkur, og það var misteygt, og missæilegt út.
Þegar hann horfði í gegnum það út í blámann hugsaði hann
sér snöggvast að endaði torg þar, og við tæki breitt síki, kannski
sjórinn; kannski hafið bláa í bládýpi nætur.
Voru gondólar þarna úti að kjamsa á staurunum við leguból
sín?
Hann hafnaði því, þeim dáleikum hugarins. Hann vissi úti
hina svölu tæru íslenzku nótt í vændum handan við forspil
kvöldsins. og strauk fingurgómunum um plasthlíf leikhússins.
Fann fyrir sér steyptan vegginn. (15–16)
32 Sjá Will Durant, Grikkland hið forna, bls. 322.
33 Um tálsýnir í myndlistarsögunni, sjá meðal annars Flaminio Gualdoni, „Trompe
l’oeil“, Trompe l’oeil, Mílano: Skira, 2008, bls. 7–26.
TÝNDUR Í TURNLEIKHÚSINU