Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2010, Page 113
113
þar er, ávarpar hermann sem situr við eitt borðið: „Ertu sofandi?“36 Í
framhaldi er líkt og grunnheimur frásagnarinnar og annars stigs heimur
innrömmuðu myndarinnar renni saman.
Turnleikhúsið geymir þó nokkur tilvik af líku tagi. Í ellefta kafla situr
maður á stól í litlu herbergi undir leiksviði og virðir fyrir sér gamlan svart-
an ofn. „og þar fyrir ofan var sólblettur sem var kannski kastað þangað
með myndverpli. Hvernig hefði hann annars átt að komast á þennan vegg
í lokuðu herberginu?“ (53). Í ljósinu birtist gluggi sem vísar út í snævi
þakið landslag. Þegar þessi lýsing er lesin í fyrsta skipti liggur beinast við
að álykta að um sé að ræða grunnheim frásagnarinnar, að hér sé hávaxni
maðurinn staddur í hvíslarakompunni undir leiksviði Þjóðleikhússins.
Þegar á kaflann líður kemur hins vegar á daginn að lýsingin er í raun hluti
af samtali annars manns við konu, sem skýtur inn eftirfarandi spurningu:
„Voru ekki myndir á veggjum? Eða var bara glugginn?“ (54). Maðurinn
svarar:
Jú það var mynd í breiðum málmramma silfurbronsuðum. Af
hverju var hún?
Ég sá ekki betur en þetta væri sami maðurinn, segir hún
aðspurð: já var þetta kannski ekki sami maðurinn? spurði hún,
og sneri sér áköf að fylgdarmanni sínum.
Hann kinkaði kolli. Hvort sem hann væri að játa þessu, eða
gefa henni merki um að halda áfram ræðunni.
En hvernig var hann eiginlega?
Þú hlýtur að geta lýst honum. Betur, segir hún.
Bíddu, sagði hann: haltu áfram.
Já áreiðanlega sami maðurinn. Það veit sá sem allt veit. Bara
örsmár, á sama stóli; í sömu stellingum í ógnarstórum sal. (54)
Hér er veruleiki Turnleikhússins orðinn verulega óstöðugur. Lesandinn á
erfitt með að gera sér grein fyrir því hvort öll frásögnin hafi verið inn-
römmuð af þessu samtali eða hvort lýsingin á manninum sem situr í stóln-
um í hvíslarakompunni ásamt myndinni af manninum sem situr á sama
stól í ógnarstórum sal sé fremur framhald af samtali mannsins og konunn-
ar. Hún er álíka áttavillt og lesandinn því hún spyr viðmælanda sinn af
töluverðri óþolinmæði: „Hvernig væri að gera sig skiljanlegan? Svo við
36 Alain Robbe-Grillet, In the Labyrinth, þýð. Christine Brooke-Rose, London: John
Calder, 1980, bls. 24.
TÝNDUR Í TURNLEIKHÚSINU