Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2010, Page 114
114
venjulegt fólk getum áttað okkur á því hvert er verið að fara. Skiptir það
kannski ekki máli? Hvers konar ferðalag er þetta eiginlega?“ (55).
Annað áþekkt dæmi er úr fjórtánda kafla sem hefst svo: „Það var kveikt
á sjónvarpinu. Skermurinn var geysistór og víður. Líkt og kvikmyndatjald.
Fyrst snjóaði þétt. Iðuhríð. Síðan hristist myndin og titraði en stilltist, þá
sáum við mennina tvo“ (63). Í kjölfarið fylgir lýsing á samtali þessara
tveggja manna á skjánum, þeir byrja á að ræða um dýrategundir úr hita-
beltinu en síðan snýst talið upp í rifrildi um hlutverkin sem þeir eru að
leika og þær skringilegu forsendur sem höfundur textans gefur sér: „Þetta
er of nákvæmt fyrir mig,“ segir annar maðurinn og lætur sig dreyma um að
svífa „upp fyrir þetta háa hús, flækjur þess allar og öll vandamálin, öll þessi
drög að einhverju sem verður kannski aldrei nema það sem það er“ (64).
„Hver segir hvað?“ spyr þá hinn maðurinn og bætir við: „Þú ert farinn að
seilast í minn texta. Það sem ég átti að segja“ (64). Svona heldur samtalið
áfram þar til annar maðurinn leggur til að þeir leiti uppi skemmtistaðinn
sem á að leynast einhvers staðar í þessu stóra húsi: „Eigum við að fara á
næturklúbb, í stað þess að sitja hér tveir og bíða eftir Godot. Minnir þetta
ekki einmitt á leikinn eftir Samúel Beckett? Nei. Jú. Æ ég veit ekki. Sá
minnir á eitthvað annað“ (66). Textinn er sannarlega meðvitaður um sjálf-
an sig sem hluta af módernískri bókmenntahefð en um leið er hér leikið
með ólík veruleikasvið því að mennirnir í sjónvarpinu standa eftir þetta
upp og opna dyrnar. Síðan segir: „Hann mætti þessum mönnum í gangin-
um þegar þeir komu út um lágar dyr svo sá hærri þurfti að beygja sig“ (67).
Hér verður skammhlaup milli ólíkra veruleikasviða, nema gert sé ráð fyrir
að grunnheimur frásagnarinnar sé allsherjar sjónvarpsútsending úr örygg-
ismyndavélum sem einhver dularfull „við“ verða vitni að.
Útgangur?
Tileinkunin í upphafi Turnleikhússins er tekin úr sögunni Gegnum spegil-
glerið og það sem Lísa fann þar (Through the looking glass and what Alice found
there, 1872) eftir breska rithöfundinn Lewis Carroll: „„So I wasn’t dream-
ing after all,“ she said to herself, „unless, unless we’re all part of the same
dream““ [„„Mig var þá ekki að dreyma eftir allt saman,“ sagði hún við
sjálfa sig, nema, nema við séum öll hluti af sama draumnum.““](5). Sá
draumkenndi veruleiki sem Carroll skapar í þessu verki, sem og í sögu
sinni um Lísu í Undralandi (Alice’s Adventures in Wonderland, 1865), gengur
á ýmsan hátt aftur í skáldsögu Thors. Turnleikhúsið geymir áhrifaríka lýs-
JÓN KARL HELGASoN