Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2010, Page 119
119
jafnt vestrænna sem kínverskra umhverfishugsuða beinst að honum í
auknum mæli.
Náttúru- og umhverfissýn daoismans er samþætt gervallri heimspeki
hans en ekki einangraður þáttur hennar. Því verður ekki hjá því komist að
fara nokkrar krókaleiðir í útlistun hennar. Fyrst ber að taka fram að nátt-
úruhugtak daoista er mun víðara en vestrænir hugsuðir hafa almennt til-
einkað sér og snertir það beinlínis lífsmáta okkar og tengsl við nánasta
umhverfi. Þannig varðar náttúrusýn daoista samtímis nýtingu okkar á
þeirri auðlind sem náttúran er og hátt okkar á að lifa lífinu með það fyrir
augum að ná árangri í hversdagslegum störfum og öðlast lífsfyllingu.
Daoismi eða dao-skólinn daojia 道家 kennir sig við táknið dao 道 sem er
uppdráttur af gangandi 辶 mannshöfði 首 og er upphafleg merking þess
„að vera á ferðinni“. Í fornritum á borð við Skjalaritningu (Shujing 书经),
sem að hluta má rekja allt aftur til 12. aldar f.o.t., kemur það fram í þessari
hversdagslegu merkingu en tók síðar að vísa til hins síbreytilega veraldar-
ferlis eins og það mótaðist innan kínverskrar heimsfræði. Í nútímakín-
versku er merking dao einfaldlega „leið“ eða „vegur“ og hefur það markað
mjög vestrænan skilning á tákninu. Dao hefur löngum þótt dularfullt og
spennandi meðal vestrænna túlkenda og þýðenda, jafnvel svo að í þýðing-
um á titli ritsins Daodejing 道德经 hefur öðru megintákni hans, de 德,
ósjaldan verið sleppt.4 Heimspekileg útfærsla á titlinum væri þó fremur
eitthvað á borð við hið fremur óþjála heiti Bókin (jing) um veraldarferlið
(dao) og kraftbirtingar (de) þess. „Vegurinn“ hefur tvímælalaust of hlut-
kennda og kyrrstæða tilvísun. Um er að ræða ferli sem er stöðugt í virkni
og eins og táknið er til marks um er þátttaka mannsins í því þýðingar-
mikil.5 Um de verður farið nánari orðum hér að neðan.
Þetta stutta en kjarnyrta grundvallarrit daoismans býður raunar ekki
upp á hvatningarorð fyrir þann sem vill öðlast skilning á dao. Það hefst
með eftirfarandi staðhæfingum: „Dao sem hægt er að lýsa er ekki hið var-
4 Gott dæmi um þetta er elsta íslenska þýðing ritsins, Lao-tse, Bókin um veginn, þýð.
Jakob J. Smári og yngvi Jóhannesson, Reykjavík: Bókaverzlun Guð mundar Gam-
alíel ssonar, 1921. Í nýlegri þýðingu er de hins vegar haldið inni, sjá Lao Tzu, Tao
Te King. Bókin um veginn og dyggðina, þýð. Njörður P. Njarðvík, Reykjavík: JPV,
2004.
5 Þessi túlkun er í nokkru samræmi við nýja þýðingu Ragnars Baldurssonar á
Daodejing sem hann kýs að nefna Ferlið og dygðin (Reykjavík: Hið íslenska bók-
menntafélag, 2010). Í inngangi ritsins gerir Ragnar ágæta grein fyrir daoisma og
sjálfu ritinu. Í því sambandi er vert að benda einnig á grein hans „Ferlisfræði öld-
ungsins og aðgerðalausar athafnir“, Hugur 20/2008, bls. 35–44.
JAFNGILDIR HEIMAR