Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2010, Blaðsíða 143
143
ast í upphafi verksins. Hann telur að Hugfróin sé ekki verk sem afneiti
heimspekinni heldur sýni takmarkanir hennar: Heimspekin getur á end-
anum ekki komið með lausn á vandamálum Bóethíusar og fullnægjandi
svör við spurningunum um gæfuna, örlögin, frelsi viljans og forsjónina eða
hið Góða sem sækja á hann. Marenbon telur rökin fyrir þessum atriðum
og hvernig þau tengjast lífi manna hvorki ganga upp né vera til vitnis um
heildstæða afstöðu eins og þá sem heimspekileg rökfærsla á að leiða til.11
Þótt Marenbon færi þannig rök fyrir því að menippíska satíran sé notuð
til að koma heimspekilegum sannindum á framfæri, hugar hann að mínu
mati ekki nægilega vel að hinum bókmenntagreinunum tveimur, hefð
hinnar rómversku consolatio og heimspekilegu samræðunni, og tilgangi
skrifa Bóethíusar í ljósi aðstæðna sinna. Með þeim hætti beinir Marenbon
sjónum sínum aðallega að fræðilegri vídd verksins (rökræðunni) og gefur
praktískri vídd þess (lífsmátanum) ekki nægan gaum – en Bóethíus vill
hugsanlega leggja áherslu á praktískar hliðar heimspekinnar og heimspeki-
legrar samræðu, þar eð fræðilegar hliðar hennar eru á endanum takmörk-
unum háðar. Jafnframt má spyrja hvort rökfræðilegar gloppur í verkinu
gætu orsakast af ástandi og stöðu Bóethíusar sem er að skrifa verk sitt í
kapp við dauðann. Myndi maður sem bíður dauða síns setjast niður og
vinna með rökfræðileg vandamál, reyna að sýna að heimspekileg rökræða
er takmörkunum háð?
4
Samkvæmt hugmyndum Pierres Hadot um iðkun heimspeki í fornöld og á
ármiðöldum skiptir virkni orðræðunnar og staða lesanda og áheyranda
afar miklu máli í því hvernig verk voru hugsuð, skrifuð og lesin og þar
skipti formið jafn miklu máli og innihaldið í verkum sem var ætlað að vera
verklegar æfingar andans.12 Á forsendum hugmynda Hadots tel ég liggja
beint við að tengja verk Bóethíusar við hugmyndina um heimspeki sem
lífsmáta og lesa það á siðferðilegum og tilvistarlegum forsendum, út frá
höfundum og verkum sem Bóethíus las, hafði mætur á og gat borið sig
saman við í ljósi aðstæðna: hann er dæmdur til dauða eins og Sókrates,
gerður útlægur eins og Cíceró, og svo framvegis.
11 Sbr. John Marenbon, Boethius, bls. 159–163.
12 Sbr. Pierre Hadot, „Forms of Life and Forms of Discourse“, Philosophy as a Way of
Life. Spiritual Exercises from Socrates to Foucault, oxford: Blackwell, 1995, bls.
61–62.
„GÓðUM MANNI GETUR EKKERT GRANDAð“