Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2010, Side 144
144
Á helleníska skeiðinu nærðist heimspekin á hugmyndum Sókratesar
hvað varðaði ástundun og markmið heimspekinnar. Sókrates var í guðatölu
hjá hellenísku spekingunum og Epiktet taldi hann hafa verið fullkominn
því „hann hlýddi skynseminni um allt, sem honum bar að höndum“; hann
bætir því reyndar við að þótt lesandinn sé enginn Sókrates þá skuli hann
lifa eins og sá sem vill verða Sókrates.13 Í orðum Epiktets endurspeglast
hvernig Sókrates varð að fyrirmynd hugmyndarinnar um heimspeki sem
lífsmáta og hvernig í honum
birtist heimspekin sem þjálfun hugsunarinnar, viljans og gjör-
vallrar tilverunnar í því skyni að öðlast spekt, þ.e. að komast í
visst ástand sem væri í raun á einskis manns færi. Heimspekin var
aðferð til að taka andlegum framförum er krafðist sinnaskipta
og gerbreyttra lífshátta. Hún var því lífsmáti í viðleitni sinni og
æfingum til að öðlast spekt en jafnframt í endimarki sínu, sjálfri
spektinni. Því spektin veitir ekki aðeins þekkingu heldur leiðir
hún einnig til nýs „veruháttar“. Hið göfuga og þversagnakennda
við fornaldarheimspekina felst í því að hún er í senn meðvituð
um að spektina sé ókleift að öðlast en þó sannfærð um nauðsyn
þess að sækjast eftir andlegum framförum.14
B.B. Price telur Bóethíus einmitt hafa stundað heimspekina á þennan
sókratíska hátt, út frá þeirri hugmynd að leitin að hinu Góða verði lykillinn
að sannri hamingju, og að hann hafi skilið Hugfróna sem leiðarvísi að
hjálpræðinu eða sem form sálfræðimeðferðar því einungis leitin og sam-
sömunin við hið Góða geti veitt manni sálarró.15
Bæði fræðileg og praktísk afstaða til heimspekinnar er vissulega að verki
í skrifum Bóethíusar, enda má lesa ofin í fald Heimspekinnar tákn sem vísa
bæði til ástundunar (praxís) og orðræðu (teoríu). Í hefð stóuspekinnar er til
dæmis gerður strangur greinarmunur á orðræðu um heimspeki (fræðilegum
hugleiðingum um hluti sem hægt er að þekkja) og ástundun heimspekinnar
sjálfrar (verklegum athöfnum sem hægt er að framkvæma). Hadot segir:
13 Epiktet, Hver er sinnar gæfu smiður. Handbók Epiktets, þýð. Broddi Jóhannesson,
Reykjavík: Almenna bókafélagið, 1993 (1. útg. 1955), bls. 73.
14 Pierre Hadot, „Heimspeki sem lífsmáti,“ bls. 111.
15 B.B. Price, Medieval Thought. An Introduction, oxford: Blackwell, 1992, bls. 62. Í
þessu sambandi segir Hadot einmitt: „Spektin var lífsmáti sem veitti sálarró
(ataraxia), innra frelsi (autarkeia) og alheimsvitund. Heimspekin var fyrst og
fremst kvíðameðferð“ („Heimspeki sem lífsmáti“, bls. 111).
steInaR ÖRn atlason