Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2010, Blaðsíða 145
145
„Samkvæmt stóuspekingum voru hlutar heimspekinnar, þ.e. náttúruspeki,
siðfræði og rökfræði, ekki hlutar heimspekinnar sjálfrar heldur orðræð-
unnar um hana“, og jafnframt segir hann að heimspekin sjálf hafi verið
fyrir stóumönnum „heildarathöfn er felst í því að lifa rökfræðina, náttúru-
spekina og siðfræðina“.16 Samkvæmt stóuspekinni verður að styðjast við
ákveðna kenningu þegar rætt er um heimspekina, til þess að hafa grundvöll
dóma, viðhorfa og breytni eða hegðunar til að miða við, en það er ekki það
sama og að lifa í samræmi við heimspekina sjálfa. Markmið heimspekinnar
sem lifandi athafnar snýr að því að lifa kenninguna, breyta í samræmi við
hana í stað þess að beita aðeins fyrir sig orðræðu hennar – og á þennan hátt
má öðlast spekt og nýjan „veruhátt“. Að þessu gefnu verður ljóst að heim-
spekileg rökræða og vankantarnir á þeirri rökræðu segja ekki allt um til-
gang eða markmið skrifa Bóethíusar eða þau tilvistarlegu og siðferðilegu
markmið sem búa verkinu að baki.
Hadot telur nauðsynlegt að lesa skrif heimspekinga í fornöld með
ákveðna hugmynd um andlega þróun í huga – að setja fram kenningu er
aldrei markmið í sjálfu sér, kenning er í eindreginni þjónustu athafnar, lífs-
máta, og undir hana sett – og því er það svo að jafnvel þótt verk virðist
algjörlega fræðilegt og kerfisbundið þýðir það ekki endilega að það hafi
verið skrifað til að skýra fyrir lesandanum innihald kenningar heldur til að
móta hann sjálfan, láta hann yfirstíga ákveðnar hindranir á leið sinni til
andlegs þroska. Iðkunin á heimspekinni tengist þar af leiðandi bókmennta-
greininni eða framsetningarmátanum órjúfanlegum böndum. Rökgreining
á verki Bóethíusar segir þess vegna ekki nema hálfa sögu og þannig má
halda því fram að Marenbon skoði verkið aðeins út frá heimspeki sem
orðræðu í stað heimspeki eins og hún var stunduð í fornöld og á ármið-
öldum. „Að lifa með raun og sanni sem heimspekingur samsvarar veruleika
sem er gjörólíkur orðræðu heimspekinnar“17 segir Hadot og í því sam-
hengi virðist Bóethíus vera undir áhrifum stóuspekinnar þegar litið er til
heimspeki sem lífsmáta og tilvistarlegs eða siðferðilegs inntaks Hugfróar-
innar eða þegar hann „beinir athyglinni að hreinleika ætlunarinnar, að því
að laga mannsviljann að skynseminni, þ.e. að vilja alheimsnáttúrunnar“18
sem er hið eina og hið góða eða Guð. En þannig reynir Bóethíus að kom-
ast handan við sjálfið og sjá sjálfan sig sem hluta af hinum skynsamlega
gangi alheimsnáttúrunnar, að hugsa og athafna sig í samræmi við hana til
16 Pierre Hadot, „Heimspeki sem lífsmáti“, bls. 112.
17 Sama rit, bls. 113.
18 Sama rit, bls. 113.
„GÓðUM MANNI GETUR EKKERT GRANDAð“