Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2010, Side 171
171
Voltaire
Míkrómegas
Heimspekisaga
Voltaire, öðru nafni François-Marie Arouet (1694–1778), var afkastamikill rit-
höfundur. Hann samdi meðal annars fjölmörg stutt skáldverk sem gjarnan eru
kölluð heimspekisögur (fr. romans/contes philosophiques), því að höfundurinn not-
aði þau ekki aðeins til að skemmta áheyrendum sínum og lesendum heldur
einnig til að fjalla um margvísleg hugðarefni sín. Þekktust þeirra eru Birtingur
eða bjartsýnin (Candide ou l’optimisme), Zadig eða forsjónin (Zadig ou la destinée),
Hrekkleysinginn (L’Ingénu), Míkrómegas (Micromégas) og Hvíta nautið (Le Taureau
blanc).1
Þótt Voltaire hafi samið um fimmtíu harmleiki var honum, eins og mörgum
samtímamönnum hans, í nöp við skáldsögur og hann var fimmtíu og tveggja ára
gamall þegar fyrsta heimspekisaga hans var gefin út. Sjálfur talaði hann um
„stutt verk“ (fr. petits ouvrages) þegar hann minntist á þessi rit í skrifum sínum.
Hafi Voltaire upphaflega samið sögurnar öðrum til ánægju og upplyftingar átt-
aði hann sig fljótt á áhrifamætti þeirra. Hann notaði þær til að koma hugmynd-
um sínum og skoðunum á framfæri og því endurspegla verkin þær breytingar
sem verða á viðhorfum höfundarins sjálfs í gegnum árin. Þeim var ekki ætlað að
vera trúverðug og Voltaire studdist gjarnan við þá byggingu sem einkennir
margar skáldsögur þessa tíma, þar sem athyglinni er beint að þroska og tilfinn-
ingalífi aðalsöguhetjunnar, þó ekki væri nema til að snúa út úr og hæðast að
háfleygum lýsingum á sorg hennar og gleði. Söguhetjur Voltaires halda sjaldan
kyrru fyrir og er ferðalagið tilefni aukins þroska og þekkingar. Eins og bæði
Birtingur og Zadig fellur Míkrómegas í ónáð, hrekst burt og af stað út í hinn
stóra heim. Í Míkrómegasi er hinn stóri heimur þó óvenju stór því að á ferðum
sínum flakkar samnefnd söguhetja frá Síríusi um himingeiminn, frá einni plán-
etu til annarrar, með stuttri viðkomu á jörðinni.
1 Sjá til dæmis Voltaire, Romans et contes, útg. René Pomeau, París: Flammarion,
1975; Voltaire, Romans et contes, útg. Frédéric Deloffre og Jacques Van Den
Heuvel, París: Gallimard, 1979. Aðeins tvö þessara rita hafa komið út í íslenskri
þýðingu: Birtíngur, þýð. Halldór Laxness, Reykjavík: Hið íslenzka bókmennta-
félag, 1975 (1. útg. 1945); Zadig eða örlögin, þýð. Hólmgrímur Heiðreksson,
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, 2007.
Ritið 3/2010, bls. 171–187