Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2010, Page 174
174
milli pláneta til að efla hug sinn og dáð eins og sagt er. Þeir sem einungis
ferðast með hestvögnum verða eflaust undrandi á ferðamátanum sem við-
hafður er þarna uppi því að við, hér á okkar litla drulluhaug, getum ekki
ímyndað okkur neitt annað en það sem við erum vön. Ferðalangurinn
okkar var frábærlega vel að sér um þyngdarlögmálið og alla krafta, að-
dráttar krafta jafnt sem hið gagnstæða. Hann nýtti sér þá svo vel að ýmist
var það með aðstoð sólargeisla eða halastjörnu sem hann fór ásamt fylgd-
arliði frá einum hnetti til annars, eins og fugl flögrar greina á milli. Hann
ferðaðist um Vetrarbrautina á skömmum tíma og mér ber skylda til að játa
það að í gegnum allan stjörnuskarann sá hann aldrei hinn fallega eldhimin
sem hinn rómaði aðstoðarprestur Derham stærir sig af að hafa séð í sjón-
aukanum sínum.6 Ekki er þar með sagt að ég haldi því fram að herra
Derham hafi missést, Guð forði mér! En Míkrómegas var á staðnum.
Hann er mjög athugull og ég vil á engan halla. Eftir að hafa skoðað sig vel
um kom Míkrómegas til hnattarins Satúrnusar. Þótt hann væri vanur að sjá
nýja hluti gat hann í fyrstu ekki varist þessu yfirlætislega brosi, sem leikur
stundum um varir hinna vitrustu, þegar hann sá smæð hnattarins og íbúa
hans vegna þess að Satúrnus er reyndar varla meira en níu hundruð sinn-
um stærri en jörðin og íbúar hans eru dvergar sem ekki eru nema þúsund
faðma háir eða þar um bil. Hann hæddist í fyrstu örlítið að þessu fólki, rétt
eins og ítalskur tónlistarmaður hlær að tónlist Lullis þegar hann kemur til
Frakklands.7 En þar sem Síríusbúinn var skynsamur mjög, skildi hann
fljótt að viti borin vera þarf alls ekki að vera fáránleg þótt hún sé aðeins sex
þúsund feta há. Hann komst í kynni við íbúana á Satúrnusi eftir að hafa í
fyrstu vakið furðu þeirra. Hann vingaðist fljótt við ritara Akademíu
Satúrnusar.8 Sá var hygginn maður sem hafði satt að segja ekki fundið
neitt upp en gerði mjög vel grein fyrir uppfinningum annarra og réð
þokkalega við að setja saman stutt kvæði og leysa flókin reikningsdæmi.
Lesandanum til ánægju greini ég hér frá einstöku samtali sem Míkrómegas
átti dag einn við ritarann.
6 Derham (1657–1735) var enskur vísindamaður sem vildi sanna tilvist Guðs. Hér er
vísað í rit hans Astrotheologie, or a Demonstration of the being and attributes of God
from a survey of the heavens, London, 1715.
7 Jean-Baptiste Lulli (1632–1687) var tónskáld við hirð Lúðvíks XIV.
8 Fyrirmynd ritarans er Fontenelle sem var ritari Vísindaakademíunnar (stofnuð
árið 1666) frá 1699–1741.
VoltaIRe