Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2010, Qupperneq 183
183
sér og skipið með áhöfn á eina nögl. Hann laut höfði og talaði lágt. Þegar
allar þessar varúðarráðstafanir og þónokkrar aðrar höfðu verið gerðar, hóf
hann loks mál sitt þannig:
„Ósýnilegu skordýr, sem hönd Skaparans hefur þóknast að láta fæðast í
hyldýpi óendanlegrar smæðar, ég þakka honum fyrir að hafa látið svo lítið
að afhjúpa fyrir mér leyndarmál sem virtust óútskýranleg. Kannski myndi
enginn láta svo lítið að horfa á ykkur við hirð mína, en ég lítilsvirði engan
og býð ykkur vernd mína.“
Hafi einhverjum einhvern tíma verið brugðið, þá var það fólkinu sem
heyrði þessi orð. Þau gátu ekki getið sér til um hvaðan þau komu. Skips-
presturinn þuldi særingar, hásetarnir bölvuðu og heimspekingar skipsins
bjuggu til kerfi, en einu gilti hvaða kerfi þeir bjuggu til, þeim var ómögulegt
að komast að því hver talaði til þeirra. Dvergurinn frá Satúrnusi, sem hafði
þýðari rödd en Míkrómegas, skýrði þeim í fáum orðum frá því við hvaða
tegundir þeir væru að tala. Hann sagði þeim frá ferðinni frá Satúrnusi, gerði
þeim grein fyrir því hver herra Míkrómegas væri, og eftir að hafa lýst vor-
kunn sinni með þeim fyrir að vera svo smáir, spurði hann þá hvort þeir
hefðu alltaf verið í svo dapurlegu ásigkomulagi sem líktist einna mest algjöru
vonleysi, hvað það væri sem þeir gerðu á hnetti sem virtist tilheyra hvölum,
hvort þeir væru hamingjusamir, hvort þeir fjölguðu sér, hvort þeir hefðu sál,
og lagði fyrir þá hundrað aðrar spurningar af þessu tagi.
Þrasari í hópnum, sem var hugaðri en hinir og hneykslaður á því að
efast væri um sálu hans, skoðaði viðmælandann með eins konar mælisigti
sem beindist að einum fjórða úr hring, gerði tvær stöður og á þeirri þriðju
sagði hann svo: „Þér álítið því, herra, af því að þér eruð þúsund faðmar frá
toppi til táar, að þér séuð … – Þúsund faðmar! hrópaði dvergurinn upp yfir
sig. Almáttugur! Hvernig getur hann vitað hvað ég er hár? Þúsund faðmar!
Honum skeikar ekki um einn þumlung. Svei mér þá, þetta atóm hefur
mælt mig! Hann er rúmfræðingur, hann þekkir stærð mína og ég sem sé
hann aðeins í gegnum smásjá þekki ekki ennþá hans stærð! – Já, ég mældi
yður, sagði eðlisfræðingurinn, og í þokkabót skal ég mæla hinn stóra félaga
yðar.“ Uppástungan var samþykkt; Hans hágöfgi lagðist endilangur þar
sem höfuð hans hefði staðið of langt upp úr skýjum hefði hann verið upp-
réttur. Heimspekingarnir okkar settu niður stórt tré á stað sem doktor
Swift hefði nafngreint en ég gætti þess að nefna ekki vegna þeirrar miklu
virðingar sem ég ber fyrir konum. Síðan ályktuðu þeir, með röð tengdra
þríhyrninga, að það sem þeir sæju væri í raun ungur, hundrað og tuttugu
MÍKRÓMEGAS