Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2010, Page 191
191
valdhafar þættust styðja lýðræði en vildu fyrst og fremst óbreytt ástand. Að
þeirra mati krafðist lýðræði þess að fullveldisréttur fólksins yrði virtur.
Væri það t.d. vilji meirihlutans að hið opinbera sinnti grunnþörfum ein-
staklinga um framfærslu, heilsugæslu og menntun, yrðu allir að hlíta slík-
um ákvörðunum og greiða til samfélagsins eins og tilskilið væri. Frelsi væri
ekki eingöngu frelsi frá einhverju heldur einnig frelsi til einhvers, ekki síst
frelsi til að bæta lífsskilyrði fólks með sameiginlegum opinberum aðgerð-
um.2
Mismunandi skilgreiningar á frelsi urðu til þess að þjóðir fetuðu ólíkar
leiðir til lýðræðis. Höfundar stjórnarskrár Bandaríkjanna voru þannig full-
ir andúðar á óheftu meirihlutaræði. Með margvíslegum og skipulegum
hætti leituðust þeir við að tempra vald hugsanlegs þjóðarmeirihluta.
Landið varð sambandsríki þar sem hvert ríki hefur mikla sjálfsstjórn.
Þrískipting valdsins er í heiðri höfð og sjálfstæði dómstóla vandlega undir-
strikað. Þjóðhöfðinginn er óháður löggjafarþinginu en ekki kosinn beinni
kosningu heldur kjörinn af sérstökum kjörmönnum. Löggjafarvaldinu var
skipt í tvennt: ríkisþingin völdu hvert tvo fulltrúa í Öldungadeild þjóð-
þingsins. Kjósendur kusu beint einungis þingmenn í Fulltrúadeildina. Svo
mikill var ótti stofnenda Bandaríkjanna að þeir bundu kjörtímabil þessara
þingmanna við tvö ár – helminginn af kjörtímabili forseta og þriðjung af
kjörtímabili Öldungadeildarþingmanns. Bretar völdu allt aðra leið til lýð-
ræðis. Þar myndaðist fyrst þingræði (e. parliamentary government) sem á
löngum tíma þróaðist yfir í þingstjórn (e. parliamentary democracy).3
Sérhver heildstæð kenning um lýðræði heldur fram sérstakri leið til
lýðræðis og hafnar þá öðrum leiðum. Þannig úthýsir stjórnskipulag Banda-
ríkjanna miðstjórnarvaldi og óheftu meirihlutaræði. Með nákvæmlega
hliðstæðum hætti gerir þingstjórnarkenning um lýðræði tilkall til þess að
vísa réttu leiðina til lýðræðis. Að baki þingstjórnarkenningu býr skilyrðis-
2 David Held fjallar ítarlega um mismunandi skilgreiningar á frelsi og tengsl þeirra
við lýðræðiskenningar í bók sinni Models of Democracy, 2. útg., oxford: Polity
Press, 1996, t.d. bls. 98–100. Til er á íslensku sígild grein Isaiahs Berlin um jákvætt
og neikvætt frelsi, „Tvö hugtök um frelsi“, Róbert Víðir Gunnarsson þýddi,
Heimspeki á 20. öld: Safn merkra ritgerða úr heimspeki aldarinnar, ritstj. Einar Logi
Vignisson og Ólafur Páll Jónsson, Reykjavík: Heimskringla, 1994, bls. 157–168.
3 Tvö megineinkenni „þingstjórnar“ eru almennur kosningaréttur og æðsta vald
þjóðþingsins, sem fer með fullveldisrétt fólksins á milli kosninga. „Þingræði“
merkti upphaflega einungis að ríkisstjórn sæti í umboði þingsins en eftir tilkomu
almenns kosningaréttar var farið að nota hugtakið í sömu merkingu og þingstjórn.
Sjá Svanur Kristjánsson, „Ísland á leið til lýðræðis: Er Júdas jafningi Jesú?“, Saga
45(2), 2007, bls. 93–128, einkum bls. 94.
KoNUNGLEGA LÝðVELDIð