Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2010, Page 199
199
segja upp konungssambandinu eins og Dönum er óheimilt að
segja upp, eða taka aftur, fullveldisviðurkenninguna.
Á þessum staðreyndum um konungssambandið, að skoðun
Íslendinga, hafði öll sjálfstæðisbarátta okkar verið bygð um
langar aldir.22
Á opinberum vettvangi andmælti enginn þessari túlkun Sveins á sambandi
Íslands og Danmerkur, enda sýnist ábending hans hárrétt: Allt frá upphafi
íslenskrar sjálfstæðisbaráttu höfðu Íslendingar fylgt þeirri skoðun Jóns
Sigurðssonar forseta að viðurkenna konungssambandið en berjast fyrir
óskoruðu fullveldi Íslands. Viðurkenning Dana á fullveldi Íslands myndi,
að mati Jóns Sigurðssonar, leiða til nánara sambands landanna tveggja –
enda væri þá byggt á jöfnum rétti bræðraþjóða.23
Þegar Sveinn Björnsson flutti fyrsta ávarp sitt sem ríkisstjóri var hins
vegar ekki lengur sátt í landinu um að fylgja uppsagnarákvæðum Sam-
bandslaganna né um það hvort konungssambandið væri uppsegjanlegt
eður ei. Í raun var ágreiningur Sveins Björnssonar og skoðanasystkina
hans í hreyfingu „lögskilnaðarmanna“ annars vegar og Bjarna Bene dikts-
sonar og samherja hans, „hraðskilnaðarmanna“, hins vegar einnig byggður
á andstæðum túlkunum þeirra á réttarstöðu Íslands eftir gerð Sam-
bandslagasamningsins 1918. Sveinn taldi skilnað landanna í reynd hafa
farið fram þá; Íslendingar nytu þegar óskoraðs fullveldis í öllum málum og
formlegt vald í höndum sameiginlegs konungs breytti þar engu um. Bjarni
Benediktsson hafði allt aðra skoðun á Sambandslagasamningnum, semsé
þá að á meðan danskur konungur færi með æðsta valdið væru Íslendingar
ófrjáls þjóð; þá fyrst yrði Ísland sjálfstætt þegar stofnað yrði íslenskt lýð-
veldi með íslenskum þjóðhöfðingja.24
22 Morgunblaðið, 12. ágúst 1939.
23 Sbr. t.d. Guðjón Friðriksson, Jón Sigurðsson: Ævisaga, Reykjavík: Mál og menning,
2002, bls. 403–404.
24 Sjá Bjarni Benediktsson, „Lýðveldi á Íslandi“, Land og lýðveldi, 1. bindi, Reykjavík:
Almenna bókafélagið, 1965, bls. 48–74, hér einkum bls. 49–50 og bls. 60. Annar
hraðskilnaðarmaður, Jónas Jónsson frá Hriflu, formaður Framsóknarflokksins,
fagnaði kjöri ríkisstjórans og skrifaði m.a.: „Íslensku skilnaðarmönnunum var ljóst,
að úr því að þeir gátu ekki komið máli sínu fram til fullnustu á Alþingi 1941, urðu
þeir að leggja megináherzlu á, að kosinn yrði ríkisstjóri, sem starfaði í raun og veru
eins og forseti í lýðveldi“ (Tíminn, 4. júlí 1941). Um lýsingu og greiningu á mál-
flutningi „lögskilnaðarmanna“ og „hraðskilnaðarmanna“, sjá Svanur Kristjánsson,
„Hraðskilnaður eða lögskilnaður? Átök um sambandsslit, sjálfstæði og lýðræði“,
Skírnir 184 (vor), 2010, bls. 23–60.
KoNUNGLEGA LÝðVELDIð