Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2010, Qupperneq 200
200
Það hentaði vel sem málamiðlun milli hópanna tveggja að kjósa ríkis-
stjóra sumarið 1941 og var í samræmi við málflutning þeirra sem reyndu
að sigla á milli skers og báru og taka ákveðin skref í átt að lýðveldi án þess
að tímasetja næstu áfanga eða taka ákvörðun um framtíðarskipan æðsta
valdsins. Eftir sem áður var djúpstæður ágreiningur til staðar eins og
fljótlega kom í ljós. En 17. júní 1941 fögnuðu Íslendingar almennt kosn-
ingu ríkisstjóra sem merkum áfanga í sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar. Öll
umgjörð kosningar og embættistöku ríkisstjórans bar merki þjóðhátíðar.
Dagurinn var 17. júní, afmælisdagur Jóns Sigurðssonar. Eftir að forseti
Alþingis hafði lýst herra Svein Björnsson réttkjörinn ríkisstjóra hófst
hátíðardagskrá:
Að þessari athöfn lokinni flutti ríkisstjórinn ávarp til þings og
þjóðar, en að því búnu risu allir viðstaddir úr sætum sínum, en
Karlakór Reykjavíkur söng þjóðsönginn, „Ó, guð vors lands.“
Ríkisstjóri gekk því næst út á svalir alþingishússins og ávarp-
aði mannfjöldann, er safnazt hafði fyrir framan húsið, nokkrum
orðum og bað þess að lokum, að fólkið hrópaði ferfalt húrra
fyrir fósturjörðinni. Var það gert, en að því loknu bauð mann-
fjöldinn ríkisstjórann velkominn til starfs síns með ferföldu
húrrahrópi.
Var þá athöfninni lokið, og sleit forseti fundinum.
Allt hafði þetta farið fram með virðuleik og yfir þessari lang-
þráðu stund í sögu Íslands hvíldi hátíðlegur blær, sem fæstir
munu gleyma, þeir er viðstaddir voru.
Íþróttafélögin í Reykjavík, sem jafnan hefja allsherjar íþrótta-
mót sitt 17. júní, stóðu fylktu liði undir fánum sínum á göt-
unum við Austurvöll, meðan athöfnin fór fram, en gengu að
henni lokinni í fararbroddi fyrir mannfjöldanum að gröf Jóns
Sigurðssonar.25
Ekki var einungis góð sátt um að stofna til embættis ríkisstjóra heldur
einnig um manninn sem kjörinn var. Sveinn Björnsson stóð þá á sextugu
og átti að baki víðtæka reynslu sem málaflutningsmaður, stjórnmálamaður
og sendiherra Íslands í Danmörku. Sveinn var kvaddur heim eftir hertöku
Danmerkur og starfaði „í sambandi við utanríkismálaráðuneyti, að því að
25 Jónas Guðmundsson, „Fyrsti ríkisstjóri Íslands“, Sveitarstjórnarmál – Tímarit um
málefni íslenzkra sveitarstjórna, 1, 1941, bls. 2–6; hér bls. 6.
sVanuR kRIstJánsson