Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2010, Page 202
202
Stefán Jóhann Stefánsson, formaður Alþýðuflokksins, var félagsmála-
ráðherra en fór einnig með utanríkismál. Hann átti fund með aðalræðis-
manni Bandaríkjanna í Reykjavík í árslok 1940. Erindi Stefáns Jóhanns við
bandarísk stjórnvöld var hið sama og þeirra Hermanns Jónassonar og
Vilhjálms Þórs í maí sama ár: að Bandaríkjamenn fengju hernaðarréttindi
á Íslandi „ef þeir opnuðu Bandaríkjamarkað fyrir íslenskum vörum og
veittu Íslendingum viðskiptaívilnanir. Stefán Jóhann taldi víst að Íslendingar
myndu beina sjónum sínum í vesturátt að loknu stríði vegna þess hve
markaðir fyrir íslenskan fisk væru ótryggir í Evrópu.“28
Það er ljóst að í huga margra íslenskra ráðamanna knúði umhyggja fyrir
innra og ytra sjálfstæði landsins á um að fá Bandaríkin til náins samstarfs
við Ísland bæði í viðskiptum og með hervernd. Þeir töldu Breta ófæra um
hvort tveggja. Þannig minntu tíðar ferðir þýskra flugvéla yfir landið
Íslendinga á takmarkaðan hernaðarmátt Breta sem á þessum tíma fóru
mjög halloka í stríðinu og landsmenn gátu allt eins átt von á þýskri innrás
eða loftárásum.29
Rétt eins og fyrir bandarísk stjórnvöld var mjög vandleyst fyrir íslenska
ráðamenn að gera hernaðarsamning á milli landanna en halda á sama tíma
í hefðbundna hlutleysisstefnu, en í Sambandslagasamningnum frá 1918
hafði Ísland lýst yfir „ævarandi hlutleysi“ sínu. Í byrjun febrúar 1941 höfðu
verið haldnir tveir sameiginlegir fundir utanríkismálanefndar Alþingis og
ríkisstjórnarinnar. Á báðum fundunum voru viðstaddir allir þrír dómarar
hæstaréttar og auk þeirra Bjarni Benediktsson þáverandi borgarstjóri og
lögfræðilegur ráðgjafi ríkisstjórnarinnar. Síðari fundinn sat ennfremur
Sveinn Björnsson. Þarna komu fram mismunandi sjónarmið varðandi hug-
myndir um bandaríska hervernd:
Sumir voru andvígir slíkri samningsgerð þar eð hún bryti gegn
hlutleysisstefnunni. Aðrir töldu að hlutleysisstefna væri ekki í
hættu þótt slíkir samningar yrðu gerðir og enn aðrir álitu að
hlutleysisstefnan væri ekki svo mikils virði að miklum hagsmun-
um ætti að fórna fyrir hana. Svipuð umræða fór fram á lokuðum
þingmannafundi nokkrum dögum síðar þar sem boðaðir voru
þingmenn allra flokka nema Sósíalistaflokksins.30
28 Valur Ingimundarson, Í eldlínu kalda stríðsins, Reykjavík: Vaka-Helgafell, 1996, bls.
20.
29 Sama stað.
30 Pétur J. Thorsteinsson, Utanríkisþjónusta Íslands og utanríkismál: Sögulegt yfirlit,
Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag, 1992, bls. 209.
sVanuR kRIstJánsson