Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2010, Page 204
204
fjárhagslega og pólitískt á herverndarsamningnum við Bandaríkin.
Skömmu eftir komu bandarísks herliðs til Íslands 7. júlí 1941 óskuðu t.d.
íslensk stjórnvöld eftir því að senda viðskiptanefnd til Washington í þeim
tilgangi að ganga eftir efndum á skýru fyrirheiti í herverndarsamningnum:
„Bandaríkin skuldbinda sig til að styðja að hagsmunum Íslands á allan hátt,
sem í þeirra valdi stendur, þar með talið að sjá landinu fyrir nægum nauð-
synjavörum, tryggja nauðsynlegar siglingar til landsins og frá því og gera í
öðru tilliti hagstæða verzlunar- og viðskiptasamninga við það.“33
Í kjölfar viðskiptasamninga Íslands við Bandaríkin vænkaðist mjög
hagur einstakra fyrirtækja og reyndar þjóðarbúsins alls. Þannig var fyrir-
tæki Thorsaranna, Kveldúlfur, skuldum vafið og nær gjaldþrota undir lok
fjórða áratugarins en því var haldið á floti með pólitískri sáttargjörð á milli
forystumanna Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks um að aðalviðskipta-
banki Kveldúlfs, Landsbankinn, skyldi ekki ganga að eignum fyrirtækisins
– og halda áfram að fjármagna rekstur Sambands íslenskra samvinnu-
félaga.34 Samningarnir við Bandaríkin greiddu fyrir útflutningsvörum
Íslendinga í Bandaríkjunum, t.d. fyrir lýsi og fiskimjöli frá verksmiðju
Kveldúlfs á Hjalteyri við Eyjafjörð. Um haustið 1941 greiddi Kveldúlfur
síðustu afborgunina af skuldum sínum við Landsbankann. „Erum skuld-
lausir“, skrifaði framkvæmdastjóri Kveldúlfs, Richard Thors, þá í dagbók
sína.35 Einnig greiddi Bandaríkjastjórn Íslendingum í dollurum fyrir fisk-
útflutning þeirra til Bretlands sem gerði þeim kleift að flytja inn nauð-
synjavörur frá Bandaríkjunum.
Íslenska yfirstéttin lét sér hins vegar ekki nægja brýnar nauðsynjavörur.
Þarfir hennar voru víðtækari en svo. Haustið 1941 var Thor Thors skip-
aður sendiherra í Bandaríkjunum og opnað var sendiráð Íslands í
Washington. Undir árslok 1941 höfðu þrír Thorsbræðranna flutt inn frá
Bandaríkjunum þrjár glæsibifreiðar af Buick-gerð og opnað leynilega
gjaldeyrisreikninga í New york til að fjármagna dvöl og ferðalög ættarinn-
ar í Bandaríkjunum. Að sögn Richards Thors hafði hann lært þessa auðg-
unaraðferð í gegnum leynilega gjaldeyrisreikninga af Vilhjálmi Þór.36
33 Sbr. þingræðu Hermanns Jónassonar forsætisráðherra, Alþingistíðindi 1941 (fyrra
aukaþing), d. 2–3.
34 Helgi Skúli Kjartansson, Ísland á 20. öld, Reykjavík: Sögufélag, 2002, bls. 137–
138.
35 Guðmundur Magnússon, Thorsararnir: Auður – völd – örlög, Reykjavík: Almenna
bókafélagið, 2005, bls. 262–263.
36 Sama rit, einkum bls. 251–282.
sVanuR kRIstJánsson