Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2010, Page 205
205
Íslenska þjóðarbúið hagnaðist einnig stórlega á stríðsárunum eins og
Þór Whitehead hefur lýst:
Á stríðsárunum hafði næstum öll verslun við útlönd beinst til
Bretlands og Bandaríkjanna. Þjóðinni hafði verið ívilnað í við-
skiptum fyrir afnot bandamannaherja af landinu. Í hervernd-
arsamningnum 1941 höfðu Vesturveldin orðið að gangast
undir víðtækar skuldbindingar um þetta. Á fimm árum höfðu
Íslendingar, sem sáu fram á greiðslustöðvun á erlendum lánum
1939, orðið ein auðugasta þjóð Evrópu.37
Efnahagslegum uppgangi fylgdi hins vegar þrálát verðbólga og deilur á
vinnumarkaði sem reyndist Þjóðstjórninni erfitt viðureignar. Haustið
1941 fór stjórnarsamstarfið mjög versnandi. Af óbirtum minnisblöðum
Sveins Björnssonar má ráða nokkuð skýrt að þegar þetta haust axlaði hann
sem ríkisstjóri ábyrgð á því að sjá landinu fyrir starfhæfri ríkisstjórn með
öllum þeim ráðum sem honum voru tiltæk sem handhafa konungsvalds
með formlegt vald til að skipa ráðuneyti og veita því lausn.38 Þar með
varð staða ríkisstjóra ekki lengur einungis táknræn staða konungs án
raunverulegs valds. Þjóðhöfðinginn varð þátttakandi í flóknu og hörðu
valdatafli í landinu þar sem fáir voru annars bræður í leik – bæði innan
flokka og utan. Skoðum þessa þróun nánar.
Í október 1941 fékkst ekki samþykki í ríkisstjórn til að leggja efnahags-
tillögur Framsóknarmanna fram á Alþingi sem stjórnarfrumvarp. For-
sætisráðherra, Hermann Jónasson, brást við með því að ganga á fund ríkis-
stjóra og biðjast lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt. Í stað þess að samþykkja
lausnarbeiðni forsætisráðherra – eins og konungur hefði gert – neitaði
Sveinn að fallast á beiðnina en fól ráðherranum og ráðuneyti hans að sitja
áfram á meðan hann héldi áfram að kanna stöðu mála. Á fundum með
þingforsetum og flokksformönnum velti ríkisstjórinn upp ýmsum mögu-
leikum: að rjúfa þing og boða til nýrra kosninga; að Sjálfstæðisflokkur
myndaði minnihlutastjórn með hlutleysi Framsóknarflokks; að endurnýja
Þjóðstjórnarsamstarfið. Sveinn ræddi jafnvel um að mynda utanþings-
37 Þór Whitehead, „Leiðin frá hlutleysi 1945–1949“, Saga 29, 1991, bls. 63–121, hér
bls. 64.
38 „Skýrsla og minnisblöð m.m. varðandi stjórnarskipti árin 1941 og 1942 og haustið
1944 og um áramótin 1946–47“, Þjóðskjalasafn Íslands, Einkaskjöl. Sveinn Björnsson
forseti. Séraskja. Hér eftir er vísað til þessarar heimildar undir nafninu Einkaskjöl
Sveins Björnssonar.
KoNUNGLEGA LÝðVELDIð