Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2010, Page 208
208
Eftir að Ólafur Thors tók við af Hermanni Jónassyni voru samskipti rík-
isstjórans og forsætisráðherra með talsvert öðrum hætti. Á tímum þjóð-
stjórnarinnar gengu þessir tveir æðstu valdsmenn í takt en nú tók að gæta
núnings á milli þeirra, fyrst á fundum bak við tjöldin en frá og með mynd-
un utanþingsstjórnar í desember 1942 einnig á opinberum vettvangi. Af
minnisblöðum Sveins verður ekki séð að Ólafur Thors hafi leitað ráða hjá
Sveini um stefnumótun heldur einungis um hvernig ætti að framkvæma þá
stefnu sem ákveðin hafði verið. Þannig var eitt fyrsta verk Ólafs að til-
kynna Sveini „dag nokkurn að hann hafi ákveðið að beita sér fyrir sam-
bandsslitum og lýðveldisstofnun þegar árið 1942“.42 Ólafur féllst á tillögu
Sveins um að við hæfi væri að láta konung og dönsku stjórnina vita um
málið áður en til afgreiðslu þess kæmi. Eftir talsverð fundahöld ríkisstjórn-
ar, ríkisstjóra og alþingismanna var ákveðið „að tilkynna konungi og
dönsku stjórnina [svo] áformin stjórnarleiðina“ og bréf þess efnis afgreidd
30. júní 1942.43
Í minnisblöðum Sveins kemur fram djúpstæð óánægja með þennan
hraða á sambandsslitunum og lýðveldisstofnun. Einnig varð ljóst að Sveinn
hafði allt aðra afstöðu til lýðræðis heldur en þorri forystumanna í stjórn-
málaflokkum landsins. Þeir töldu yfirleitt að flokkarnir og Alþingi ættu að
taka ákvörðun um slit á sambandinu við Dani og gerð stjórnarskrár fyrir
nýtt lýðveldi Íslendinga. Hlutverk þjóðarinnar væri að fella dóm yfir verk-
um og tillögum stjórnmálaflokka, venjulega í þingkosningum en um sam-
bandsslit og lýðveldisstofnun í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þegar í júní 1942
reyndi Sveinn Björnsson að koma umfjöllun um sambandsslit og lýðveldis-
stofnun úr þeim farvegi sem Ólafur Thors hafði haft forgöngu um að
móta. Á fundi með ríkisstjórn og þingmönnum lét ríkisstjórinn þau orð
falla „hvort ekki mundi fara best á því að hvatt yrði til sérstaks þjóðfundar
um málið“.44
Sveinn hafði hins vegar enga stöðu til að fylgja málflutningi sínum eftir
enda hafði hann við embættistökuna lagt áherslu á að ríkisstjóra bæri að
virða vilja og forræði Alþingis – eins og konungur hafði gert. En skyndi-
lega barst andstæðingum hraðskilnaðarmanna óvæntur liðsauki sem ríkis-
stjórnin gat ekki hundsað. Sérstakur trúnaðarmaður Roosevelts Banda-
42 Sama heimild, bls. 149.
43 Sama stað.
44 Sama stað. Um deilur um lýðræðið í aðdraganda lýðveldisstofnunar, sjá Svanur
Kristjánsson, „Stofnun lýðveldis – nýsköpun lýðræðis“, Skírnir 176 (vor), 2002,
bls. 7–45, og Svanur Kristjánsson, „Hraðskilnaður eða lögskilnaður?“.
sVanuR kRIstJánsson