Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2013, Síða 11
10
þessarar greinar er að skýra frá þeirri umræðu og um leið að mæla fyrir
þessari víðtæku notkun hugtaksins ‚andóf‘ í íslenskum sagnfræðirannsókn-
um.13 Það er að mínu mati hagur í því fyrir fræðimenn að „leysa hugsanir
sínar úr álögum steingerðra orðtaka“, eins og Stephan G. Stephansson
orðaði það,14 og ég tel að kostir þess að beita hugtakinu á þennan hátt séu
margfalt fleiri en gallarnir.
Hvað er andóf?
Í hugtakasafninu Wordnet er enska hugtakið ‚resistance‘ skilgreint sem
„athöfn sem felur í sér andstöðu við eitthvað sem manni mislíkar eða er
ósammála“.15 Út frá því mætti draga þrjár ályktanir: Í fyrsta lagi að í andófi
felist athafnir af einhverju tagi. Í öðru lagi að í því felist ávallt afstaða gegn
einhverju og í þriðja lagi að hugtakinu ‚andóf‘ fylgi engin sérstök skilyrði
um það hver markmið andófsins séu eða hvernig það skuli framkvæmt.
Framangreind skilgreining skilur hins vegar eftir sig ýmsar áleitnar spurn-
ingar: Er öll andstaða andóf? Þurfa að vera einhver tengsl til staðar á milli
sjálfsvitundar einstaklings og þess fyrirbæris, atburðar eða hugarfars sem
hann er að bregðast við? Sé vísað aftur til Hafliða og sýslumannsins þá
má spyrja hvort, eða að hve miklu leyti, Hafliði hafi þurft að gera sér
grein fyrir því að með hegðun sinni hafi hann verið að óhlýðnast skipun
„hins rjetta hlutaðeigandi yfirvalds“ til að hægt sé að túlka þá hegðun sem
andóf?
Þá háir það þessari skilgreiningu að þar er hvergi minnst á vald. Út frá
henni gætu viðbrögð einvalds konungs við uppreisn, eða lögregluþjóns
við hegðun mótmælenda, auðveldlega flokkast sem form andófs. Svo víð
skilgreining er ónothæf í fræðilegu samhengi og því nauðsynlegt að leita
fanga víðar. Til dæmis mætti leita til sænska félagsfræðingsins Stellans
Vinthagen sem skilgreint hefur andóf sem hvers kyns breytni sem vinnur
gegn undirskipun fólks í samfélagslegt stigveldi. Andóf sé ávallt í andstöðu
13 Á sama hátt og resistance hefur í þessum fræðum verið notað sem regnhlífarhugtak
fyrir önnur orð sem hafa svipaða merkingu en ólík hughrif og smávægilegan blæ-
brigðamun (t.d. dissent, disobedience eða rebellion), þá er orðið andóf hér hugsað sem
samheiti yfir hegðun sem í öðru samhengi væri lýst með öðrum orðum sem hefðu
svipaða merkingu (t.d. viðnám, andstaða, mótspyrna, uppreisn).
14 Tilvitnun fengin frá Viðari Hreinssyni, „Íslenska akademían. Kotungar í andófi“,
Skírnir 1999, bls. 255–268, hér bls. 263.
15 „Resistance“, ensk-enskt orðanet (Wordnet 2.1), Snara.is. Sótt þann 18. október
2012 af http://snara.is/8/s8.aspx?action=search&sw=resistance
Vilhelm Vilhelmsson