Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2013, Síða 54
53
jafnrétti allra.19 Þess háttar gagnrýni byggir á annars konar mannskilningi;
á manneskjunni sem tengslaveru, tengda öðrum manneskjum sem og í alls
kyns þekkingar- og valdasamhengi sem skilyrðir líf hennar og bindur hana
öðrum manneskjum órofa böndum. Hvernig má þá endurskilgreina jafn-
réttishugtakið með þetta í huga?
Vald sem tengsl
Sá hefðbundni skilningur sem Foucault vildi véfengja með því að leggja
áherslu á valdatengsl snerist um þann skilning á valdi að einhver gæti haft
vald eins og það væri raunverulegur hlutur sem hægt væri að afhenda og
veita viðtöku. Vald, samkvæmt Foucault, er sjálfstæðara afl en svo að ein-
hver geti haft það undir höndum; það er grundvallaratriði í greiningu
hans að ekki sé hægt að tala um vald nema sem samskipti við aðra. Vald er
aðeins heiti á því sem gerist í þeim samskiptum. Aftur á móti getur maður
verið í ráðandi stöðu til þess að beita valdi gagnvart öðrum.20
Við lestur á Vitfirringu og siðmenningu, einu af fyrstu verkum Foucaults,
fer ekki mikið fyrir valdahugtakinu þótt greinilega sé fengist við valda-
tengsl.21 Þau samskipti valds sem eru ráðandi í þeirri bók fást við hindrun
og útilokun; þær aðstæður sem setja einstaka sjálfsverum skorður. Þar af
leiðandi kemst hann upp með neikvæða skilgreiningu á valdi í formi boða
og banna. Þegar Foucault tekur hins vegar að rannsaka refsikerfi ríkja og
birtingarmynd þeirra, fangelsin, fyrir Gæslu og refsingu, uppgötvar hann að
þörf er á endurskilgreiningu sem nái að fanga valdahugtakið í þeirri mót-
andi mynd sem sýnir sig í fangelsiskerfinu. Skilgreiningu sem gæti útskýrt
af hverju vald sé ekki aðeins takmarkandi fyrir líkama okkar, hegðun og
sjálfsveruhátt, heldur einnig mótandi.
Því verður valdahugtakið afar áberandi í hugmyndum Foucaults á átt-
19 Í grein Vilhjálms Árnasonar „Umhyggja og réttlæti, gagnrýni femínista á réttlæt-
iskenningu Rawls“ má finna áhugaverða umfjöllun um galla þeirrar pælingar að gert
sér ráð fyrir „fullveðja“ sjálfsveru í réttlætiskenningum út frá gagnrýni Susan Moll-
er-okins og umhyggjusiðfræði Carol Gilligan. Vilhjálmur Árnason, „Umhyggja
og réttlæti, gagnrýni femínista á réttlætiskenningu Rawls“ í Ritinu 2/2002, Guðni
Elísson, Jón Ólafsson, bls. 103–116, hér bls. 114–115.
20 Valdbeiting er oft skilin neikvæðum skilningi í íslensku. Foucault gerir hins vegar
skýran greinarmun á því að hafa vald og að beita valdi, þar sem hið fyrrnefnda á að
lýsa því að sjá vald sem hlut en hið síðarnefnda því að sjá vald sem samskipti manna
á milli.
21 Mark Kelly, The Political Philosophy of Michel Foucault, New york: Routledge, 2009,
bls. 32.
GETUR LEiKURiNN VERið JAFN?