Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2013, Page 125
124
heldur breiddist vitneskjan um atburðina einnig með sjálfsprottnum hætti
um landið, menn báru sig eftir handritum til að afskrifa, breyttu frásögn-
unum að vissu marki, slepptu úr eða juku við. Síðan var efnið vafalaust
endursagt munnlega og menn tileinkuðu sér það á mismunandi hátt.
Jafnframt því sem ljóst er að Tyrkjaránið varð skjótt að þjóðminningu er
margt sem bendir til þess að það hafi ekki takmarkast við þjóðminninguna
framan af þó að það gerðist síðar. Atburðurinn varðaði bæði danska kon-
ungsveldið og kristnina sem hin herteknu tilheyrðu. Kristjáni konungi bar
að gæta allra þegna sinna í ríkinu og þá ekki síst þeirra sem voru í sálarháska
í landi íslams. Þessi afstaða kemur einnig fram hjá Ólafi Egilssyni. Annars
vegar var sjálfsmynd hans kristin, hins vegar samsamaði hann sig samfé-
laginu í Kaupmannahöfn þar sem honum fannst hann vera kominn „heim“
þegar hann náði þangað eftir ferð um meginland Evrópu. Svipaða sögu
er að segja af íslenska stórbóndanum Kláusi Eyjólfssyni og danska kaup-
manninum Níelsi Klemenssyni sem sameinuðust í kristilegum skilningi á
Tyrkjaráninu með því að láta gera altaristöflu sem þeir gáfu til Krosskirkju
og ég hef útlagt sem hugleiðingu um Tyrkjaránið.11 „Minningaheimur“
þeirra var ekki takmarkaður við Íslandsstrendur eða danska ríkið heldur
náði til táknheims kristninnar og óvina hennar, Tyrkjaveldis.
Minning Tyrkjaránsins lokaðist hins vegar fljótlega inni í íslenskri
þjóðminningu. Ein skýring kann að vera sú að ránið var fyrst og fremst
ógnun við landið í heild – og Vestmannaeyjar sérstaklega – en í minna
mæli danska ríkið eða stærri heildir, a.m.k. til lengri tíma. Það bliknaði við
hliðina á ýmsum áföllum í hjarta ríkisins. önnur skýring er sú að það hafi
lokast inni í íslenskri tungu, íslenskum ritum. Prentun á danskri þýðingu á
reisubók Ólafs Egilssonar 1740 og 1741 hafði ekki langtímaáhrif.
Ritaðar frásagnir Kláusar, Ólafs og Björns og útbreiðsla þeirra í hand-
ritum staðfestu þjóðarminningu um Tyrkjaránið en komu ekki í veg fyrir
að minningar mótuðust á annan hátt, einstaklingsminningar og hópminn-
ingar af ýmsu tagi. Minningasamfélög urðu til, samfélög manna sem deildu
sömu eða skyldum minningum og ræddu um þær. Nýjar (þjóð)sögur voru
samdar og eldri sögur voru lagaðar að Tyrkjaráninu. örnefni spruttu upp
eða þau sem voru fyrir voru látin snúast um ránið. Vissulega skorðuðu ítar-
legar frásagnir Kláusar og Ólafs hópminningu Vestmannaeyinga því erfitt
var að skálda allt aðra atburðarás og aðstæður en þær lýstu. Rituð frásögn
11 Þorsteinn Helgason, „Sverð úr munni Krists á Krossi“, Árbók Hins íslenska forn-
leifafélags 2000–2001, bls. 143–167.
ÞoRsteinn helgason