Peningamál - 01.03.2004, Blaðsíða 74
hvaða mælt verðbólgustig geti samrýmst verðstöðug-
leika. Er þá m.a. tekið tillit til mæliskekkna í vísitölu
neysluverðs og ýmissa hagrænna raka fyrir því að
ekki sé heppilegt að stefna að mjög lítilli verðbólgu
vegna t.d. hættu á verðhjöðnun,23 enda innihalda
þolmörk verðbólgumarkmiðsins 0% mælda verð-
bólgu í einungis tveimur tilvikum (Sviss og Taíland)
og eru dæmi um að verðbólgumarkmiðið hafi verið
endurskilgreint til að útiloka 0% verðbólgu vegna
ótta við að lenda í verðhjöðnun.
Að meðaltali er verðbólgumarkmiðið 2,7%
meðal allra ríkjanna en 2,1% meðal iðnríkja. Algeng-
ast er hins vegar að miða við 2% eða 2,5% meðal alls
ríkjahópsins en 2% meðal iðnríkja. Að sama skapi er
algengast að bil- eða þolmörk verðbólgumark-
miðsins séu um 1% til beggja átta. Þau eru þó yfir-
leitt víðari meðal þróunarríkja og ríkja sem hafa búið
við meiri verðbólgusveiflur eins og búast má við
enda hafa sveiflukenndir undirliðir eins og landbún-
aðarvörur iðulega meira vægi í vísitölu neysluverðs
hjá þróunar- og nýmarkaðsríkjum. Í sumum tilvikum
er notast við víðari þolmörk á aðlögunarferlinu, eins
og sjá má í rammagrein 1 sem lýsir nánar þróun verð-
bólgumarkmiðs þessara ríkja. Þar sést einnig að al-
gengt er meðal ríkja sem hafa gengið í gegnum að-
lögunarferli að endanlegu langtímamarkmiði að
miða verðbólgumarkmiðið við lok hvers árs (desem-
ber-desember verðbólgu), fremur en hvern mánuð
eða ársfjórðung. Þegar aðlögunarferlinu lýkur hefur
þessu í mörgum tilvikum verið breytt í markmið sem
miðast við allt árið enda má ætla að gagnsæi og
reikningsskil peningastefnunnar séu meiri ef mark-
miðið er í gildi allt árið en ekki eingöngu t.d. í árslok.
Í Ástralíu (og nú nýlega Nýja-Sjálandi) er verðbólgu-
markmiðið hins vegar miðað við hagsveifluna, þ.e.
verðbólgumarkmiðið er ekki hugsað þannig að bank-
anum beri að halda verðbólgu innan bilmarkanna
öllum stundum, heldur að meðaltali yfir nokkur ár.
Eins og sjá má á myndunum í rammagrein 1 er
nokkuð misjafnt hvar í verðbólguhjöðnunarferlinu
ríkin voru þegar verðbólgumarkmiðið var tekið upp.
Í fimm tilvikum var verðbólga þegar við langtíma-
markmiðið er stefnan var tekin upp (Ástralía, Bret-
land, Noregur, Sviss og Taíland). Í hinum tilvikunum
hafa ríkin skilgreint aðlögunarferli að markmiðinu
sem hefur tekið mislangan tíma (nánar er fjallað um
aðlögunarferlið í grein höfundar, 2004). Í sjö tilvik-
um var tölulegt verðbólgumarkmið ekki skilgreint
opinberlega fyrr en nokkru eftir að stefnunni var
formlega komið á fót (Chíle, Ísrael, Kanada, Suður-
Afríka, Svíþjóð, Tékkland, Ungverjaland) og í
þrettán tilvikum var skilgreint aðlögunarferli fyrir
verðbólgumarkmiðið sjálft í átt að langtímamark-
miðinu. Í einu tilviki var verðbólgumarkmiðið skil-
greint óbreytt frá upphafi en efri þolmörk höfð víðari
framan af aðlögunarferlinu (Ísland).
Mismunandi er hvort kveðið sé á um reglulega
endurskoðun verðbólgumarkmiðsins. Í ellefu tilvik-
um eru engin slík ákvæði en í tíu er kveðið á um ár-
lega endurskoðun. Yfirleitt er þá um að ræða ríki sem
eru nýkomin úr eða í miðju verðbólguhjöðnunarferli.
Undantekningarnar eru Bretland, Kanada og Nýja-
Sjáland en þá fer endurskoðunin saman við reglulega
endurnýjun yfirlýsingar stjórnvalda og seðlabanka
um túlkun lagaákvæðis um verðstöðugleika í lögum
bankanna. Kostur reglulegrar endurskoðunar er sá að
með henni er hægt að ítreka stuðning nýkosinnar rík-
isstjórnar við verðbólgumarkmiðið. Slík endur-
skoðun býður hins vegar þeirri hættu heim að sífellt
sé verið að breyta skilgreiningu verðbólgumark-
miðsins, eins og reynsla Nýja-Sjálands er e.t.v. dæmi
um.
Að sama skapi er misjafnt hver tímarammi verð-
bólgumarkmiðsins er. Algengast er að tímaramminn
sé opinn, þ.e. að hann endurspegli tímatafir miðlun-
arferlis peningastefnunnar sem almennt eru taldar
vera u.þ.b. tvö ár (sjá t.d. grein höfundar í Peninga-
málum, 2001/4). Með þessu reyna seðlabankarnir að
PENINGAMÁL 2004/1 73
22. Í fræðilegum skrifum hefur nokkuð verið fjallað um möguleikann á
verðlagsmarkmiði í stað verðbólgumarkmiðs (sjá t.d. Svensson, 1999).
Verðlagsmarkmið myndi draga úr óvissu um verðlagsþróun þegar fram
líða stundir en líklega á kostnað aukinna hagsveiflna (Fischer, 1994).
Mishkin og Schmidt-Hebbel (2001) og Batini og Yates (2003) velta
einnig fyrir sér kostum þess að blanda saman verðlags- og verðbólgu-
markmiðum. Slíkt kerfi gæti sameinað kosti beggja útfærslna en gæti
reynst erfitt í framkvæmd, sérstaklega þegar kemur að því að útskýra
peningastefnuna fyrir almenningi. Enginn seðlabanki hefur tekið upp
verðlagsmarkmið síðan Svíþjóð studdist við slíkt markmið á fjórða ára-
tug síðustu aldar (Berg og Jonung, 1999). Sjá einnig yfirlit í grein Jóns
Steinssonar (2001).
23. Mishkin og Schmidt-Hebbel (2001), Amato og Gerlach (2002) og
Truman (2003) fjalla um mismunandi sjónarmið um hvert langtíma-
viðmið verðbólgumarkmiðsins eigi að vera og t.d. hvort það eigi að
vera hærra hjá þróunar- og nýmarkaðsríkjum en hjá iðnríkjum, m.a.
vegna þess að fyrrnefndi ríkjahópurinn vex að jafnaði hraðar en sá
síðarnefndi (Balassa-Samuelson-áhrifin). Yfirlit yfir mismunandi
sjónarmið varðandi val á verðbólgumarkmiði er einnig að finna í grein
höfundar í Peningamálum, 2000/1.