Peningamál - 01.03.2004, Qupperneq 78
rúmur helmingur bankanna tölulega spá um hagvöxt
opinberlega, sem er athyglisvert í ljósi mikilvægs
samspils hagvaxtar og verðbólgu. Þó er rétt að hafa í
huga að þeir bankar sem birta ekki tölulegar spár um
hagvöxt gera í flestum tilfellum grein fyrir sýn sinni
á framtíðarþróun þjóðarbúskaparins með almennum
hætti.29 Meðallengd spátímabilsins er rúmlega tvö ár
og spá flestir bankanna til næstu 6-8 ársfjórðunga.
Nokkrir bankanna spá hins vegar til lengri tíma en
tveggja ára. Þar af eru fjórir bankar sem spá til næstu
níu ársfjórðunga og þrír sem spá til næstu þriggja ára
eða lengur.30
Að lokum sýnir tafla 6 hvernig bankarnir bregð-
ast við með ólíkum hætti víki verðbólga frá mark-
miðinu. Þar kemur í ljós að í fæstum tilfellum eru
skýr ákvæði um slík viðbrögð sem kemur nokkuð á
óvart í ljósi þess hve mikla áherslu verðbólgumark-
miðsbankar hafa lagt á að standa reikningsskil gerða
sinna. Þó er líklegt að bankarnir telji síendurtekin
frávik frá markmiðinu (séu þau nógu stór) óæskileg
fyrir orðspor bankanna og þeirra einstaklinga sem
taka ákvarðanir í peningamálum. Vel má vera að
þetta veiti bankanum nægilegt aðhald. Í þremur ríkj-
um er fyrirfram kveðið á hve langan tíma bankinn
hafi til að ná markmiðinu aftur (yfirleitt tvö ár) og í
sex tilvikum er bönkunum gert að rita opinbera
greinargerð þar sem fram kemur hver ástæða fráviks-
ins er, hver viðbrögð bankans verða og hversu lang-
an tíma það tekur að ná markmiðinu að nýju. Ný-Sjá-
lendingar hafa gengið hvað lengst í því að tryggja að
bankinn standi reikningsskil gerða sinna en sam-
kvæmt lögum er stjórnvöldum heimilt að víkja
bankastjóranum úr starfi fari verðbólgan út fyrir bil
verðbólgumarkmiðsins. Ljóst er að erfitt yrði að
fylgja eftir sambærilegum ákvæðum hjá flestum
hinna bankanna þar sem fjölskipuð nefnd tekur
ákvörðunina í peningamálum, ólíkt því sem er í
Nýja-Sjálandi þar sem bankastjórinn einn tekur
ákvörðun, eins og áður hefur komið fram.
4.5. Stjórntæki peningamála
Seðlabankar geta notað skammtímavexti á peninga-
markaði eða peningamagnsviðmið sem aðgerða-
markmið peningastefnunnar til að hafa áhrif á lausa-
fjárstöðu fjármálakerfisins. Eins og kemur fram í
töflu 7 nota flestir seðlabankanna skammtímavexti
sem aðgerðamarkmið peningastefnunnar, ýmist dag-
vexti eða aðra skammtíma peningamarkaðsvexti (allt
upp í þriggja mánaða millibankavexti). Einungis þrír
stýra peningastefnunni með hliðsjón af markmiðum
um lausafjárstöðu bankakerfisins, en í öllum tilvik-
um eru það seðlabankar sem áður notuðust við pen-
ingamagnsmarkmið sem akkeri peningastefnunnar.
Allir seðlabankarnir nema Kanadabanki nota
markaðsaðgerðir sem meginstjórntæki peningamála,
ýmist í formi endurhverfra viðskipta eða með kaup-
um og sölu markaðsbréfa, ýmist ríkisvíxla eða
skammtímabréfa gefinna út af bankanum sjálfum
(margir seðlabankanna nota báðar aðferðir). Kanada-
banki heldur hins vegar magni grunnfjár í greiðslu-
kerfinu föstu og hefur áhrif á markaðsvexti með
vaxtabandi á nettóstöðu greiðslukerfisins.
Að lokum sýnir taflan meginástæður þess að
seðlabankarnir gætu mögulega gripið inn í gjald-
eyrismarkaðinn, svo sem finna má í opinberum ritum
þeirra (sjá Carare o.fl., 2002). Flestir bankanna vilja
halda þessum möguleika opnum, þótt inngrip virðist
hafa verið lítið notuð á síðustu árum, sérstaklega
meðal iðnríkja. Meðal undantekninga má þó nefna
íslenska og sænska seðlabankann.
Möguleg ógn gengisþróunar við verðbólgumark-
miðið er jafnan nefnd sem ástæða mögulegra inn-
gripa á gjaldeyrismarkaði en ógn við fjármálalegan
stöðugleika er einnig nefnd. Aðeins ungverski seðla-
bankinn notar inngrip til að verja ákveðinn gengis-
feril, sem helgast af aðlögun hagkerfisins að kröfum
Maastricht-samkomulagsins við inngöngu í Mynt-
bandalag Evrópu (sjá Jonas og Mishkin, 2003).31
PENINGAMÁL 2004/1 77
29. Þetta á ekki við Pólland, sem birtir engar spár um verðbólgu og hag-
vöxt, né Suður-Afríku, sem birtir enga hagvaxtarspá (sjá Fracasso o.fl.,
2003). Mexíkó sýnir spár markaðsaðila og vísar með mjög almennum
hætti í eigin spár.
30. Ný-sjálenski seðlabankinn er jafnframt eini bankinn sem einnig birtir
spá sína um þróun stýrivaxta út spátímabilið, þ.e. þeirra vaxta sem sam-
rýmast því að verðbólgu sé haldið við markmið út frá gefnu viðbragðs-
falli bankans, og hvetur Svensson (2001) aðra verðbólgumarkmiðs-
banka til að gera hið sama. Aðrir bankar, eins og t.d. Englandsbanki og
sænski seðlabankinn, birta einnig verðbólguspár út frá vaxtaferlum sem
hægt er að lesa út úr eingreiðsluferli markaðsvaxta. Nokkrir birta
einnig upplýsingar um dreifingu spáa innan peningamálaráðsins sé
ágreiningur innan þess.
31. Nokkrir bankar nefna einnig uppbyggingu gjaldeyrisforða sem ástæðu
inngripa. Yfirleitt er þó gerður greinarmunur á inngripum sem hafa það
að markmiði að hafa áhrif á gengi gjaldmiðla (stundum kölluð bein inn-
grip) og inngripum sem eingöngu eru notuð til að hafa áhrif á gjaldeyr-
isforða seðlabankans. Sjá grein Gerðar Ísberg og Þórarins G. Pétursson-
ar í Peningamálum, 2003/1.