Glóðafeykir - 01.04.1979, Side 15
GLOÐAFEYKIR
15
lagsins má nefna nýtt og stórt verzlunarhús, sem jafnframt á að vera
húsnæði fyrir skrifstofur og aðalstöðvar félagsins. Teikning hefir verið
gerð af húsinu og grunnur þegar grafinn, og eru framkvæmdir á
honum á næsta leiti.
Rekstur félagsins hefir farið jafnt og þétt vaxandi, og er óþarft að
nefna hér tölur því til staðfestingar, og enn vex rekstur þess og mun
fara vaxandi. Starfssvið félagsins hefir einnig stækkað, og tekur það nú
yfir öll sveitarfélög í Skagafirði, hreppa sýslunnar og Sauðárkróks-
kaupstað, enda hefir tala félagsmanna vaxið í samræmi við þetta hin
síðari ár, og er raunar eðlilegt og líklegt, að hún muni aukast verulega
næstu árin. Þróunin stendur eigi í stað.
Svo sem á er drepið hér að framan, hefir Kaupfélag Skagfirðinga oft
átt andstöðu að mæta og reyndar átt við aðra erfiðleika að etja,
einkum fyrstu árin, og hefir því þurft að heyja nauðsynlega baráttu,
svo sem skiljanlegt er. Hefir þá einkum reynt á forystumenn félagsins,
en þeir hafa einatt reynzt dugandi og þess umkomnir að bægja frá
hættum, halda uppi rétti félagsins og opna leiðir. Margir þeir menn
eru nú gengnir, og hafa fáeinir þeirra verið nefndir hér að framan. En
öllum þeim baráttumönnum, lífs og liðnum, þakkar félagið nú mik-
ilsvert og óeigingjarnt starf fyrir heill og heiður félags síns. Það er
almennt viðurkennt, að félagið hefir fyrr og síðar verið lánsamt með að
hafa góða starfsmenn, og stendur það í mikilli þakkarskuld við þá. Ég
hefi kosið að sleppa að telja upp nöfn í þessari stuttu ritsmíð, þar sem
slík upptalning yrði of rúmfrek. Það er ánægjulegt að minnast þess nú,
að Kaupfélag Skagfirðinga er gott og öflugt fyrirtæki, sem nýtur
almenns trausts og virðingar.
I lok þessa máls vil ég flytja Kaupfélagi Skagfirðinga á 90 ára
afmæli þess beztu óskir mínar um góða framtíð. Megi starfsemi þess
ganga sem bezt til velfarnaðar og heilla fyrir félagsmenn og raunar
fyrir héraðið allt og íbúa þess. Megi starfsemi félagsins einkennast af
heiðarleik og drengskap, og kappkostað verði að vinna sem bezt og
ötulast að markmiðum félagsins með heiðri og sæmd.
Jóhann Salberg Guðmundsson.