Glóðafeykir - 01.04.1979, Síða 56
56
GLÓÐAFEYKIR
Gísli Magnússon og Guðrún Sveinsdóttir, Eyhildarholti, ásamt börnum þeirra.
En sagan er ekki öll.
Þegar boðin komu var þegar brugðið við, menn tygjuðu sig til farar,
lögðu reiðing á hesta og héldu af stað með lest í taumi — til að sækja
björg í bú. Við, sem fáum hvaðeina, er við þörfnumst, með bifreið
heim í hlað nær sem okkur hentar bezt, eigum naumast auðvelt með
að setja okkur fyrir sjónir þá örðugleika ýmsa, er oft voru samfara
þessum kaupstaðarferðum — og að sjálfsögðu eigi sízt fyrir þá, er
sækja þurftu um langan veg. Ferðinni varð eigi skotið á frest. Leggja
varð upp um leið og hraðboðinn kom, hvernig sem á stóð heima fyrir,
hvernig sem veður var. Hásumar var að vísu. En veðráttan er mislynd.
Úrfelli koma á hvaða tíma sem er — og láta sig einu gilda þótt
kornvara og sykur kunni að blotna og skemmast. Já, víst voru erfið-
leikarnir miklir. En vissulega báru blessaðir klárarnir ómældan hluta
af þeim, eins og jafnan áður í sögu þjóðarinnar.
En þessar kaupstaðarferðir um sólstöðurnar höfðu líka sínar björtu
hliðar. Var ekki trútt um, að sumir hlökkuðu til. Má nærri geta, að oft
hefur verið fjör á ferðum þar sem margir voru í hóp, jafnvel heilar
sveitir urðu samferða um „nóttlausa voraldar veröld“ þessa heiðfagra
héraðs. Menn hittu gamla kunningja og eignuðust nýja. Þegar sólin
skein og náttúran hló um hábjartan dag, þegar kvöldbjarminn kynti
bál á Glóðafeyki, þegar Drangey og Tindastóll glóðu sem gull í ár-