Skírnir - 01.01.1975, Page 10
ÞORSTEINN GYLFASON
SKÍRNIII
skýringar, en slíkar skýringar þykir okkur, af skiljanlegum ástæð-
um, mest um vert að finna á alvarlegum frávikum í lífi og starfi
manna. Leitin að líffræðilegum skýringum hefur þegar borið um-
talsverðan árangur. Við kunnum nú að rekja vissar tegundir fávita-
háttar til erfðagalla. Fyrir skemmstu tókst að rekja rígskekkju
(dystonia musculorum deformans), óhugnanlega veiki sem áður
hafði verið talin til afbrigða sefasýki, til fruma í heiladingli.2 Og
við höfum góða von um að finna megi sambærilegar skýringar á
flestri alvarlegri geðveiki.3
Þess má geta áður en lengra er haldið að þessari von hljóta að
fylgja alvarlegar efasemdir um störf sálfræðinga að líknarmálum.
Rökstuddur grunur lífeðlisfræðinga um orsakir rígskekkju bauð
heim tilraunum til að komast fyrir meinsemdina með heilaaðgerð,
í þessu dæmi frystingaraðgerð sem reyndar lánaðist. Fyrsti sjúkling-
urinn sem undir aðgerðina gekk var ung stúlka sem verið hafði í
umönnun sálfræðinga um árabil. Öratíma hafði verið varið til að
kanna æviferil hennar eftir sálgreiningarforskriftum og setja sam-
an langar ritgerðir með tilhlýðilegum tilvísunum til grískrar goða-
fræði, og þessi iðja hafði beinlínis varnað því að hún fengi þá hót
meina sinna sem kostur var á. I þessu viðfangi geta sálfræðingar að
vísu huggað sig við að algengara mun að dæmi þessu lík séu hrosleg
en grátleg. Þar á meðal er dæmið af hugsýki Darwins sem hefur
lengi verið mikið eftirlæti sálgreinenda. Nú má heita sannanlegt að
það var ekki hatur Darwins á föður sínum, vitanlega samfara girnd-
arhug sem hann felldi til móður sinnar, sem birtist bæði í þunglyndi
hans og þróunarkenningunni, heldur hafði fluga nokkur bitið hann
í Brasilíu með þeim endanlegu afleiðingum að hann lá í sinnuleysi
drjúgan hluta ævi sinriar.4 En um sálmeinafræði var ekki ætlunin
að fjalla. Eg vildi aðeins nefna ótvíræð dæmi um ótvíræðar skýr-
ingar á frávikum mannlegrar breytni og sálarlífs.
En þessar skýringar eru ekki sálfræðilegar heldur líffræðilegar.
Og þá er vonlegt að sú spurning vakni hvort við getum veitt sam-
bærilegar sálfræðilegar skýringar á einhverjum eða öllum fyrir-
hærum mannlífsins: skýringar sem eru ámóta markverðar og skýr-
ingin á þunglyndi Darwins með tilvísun til eituráhrifa fluguhitsins,
skýringar sem grundvallaðar eru á fræðilegum rannsóknum með
svipuðum eða sambærilegum hætti - og eru jafnframt sérkennilegar