Skírnir - 01.01.1975, Page 15
SKIRNIR
ÆTTI SÁLARFRÆÐI AÐ VERA TIL
13
dulvitundarkenningarinnar. Símon segir: „Maðurinn, sem ég sé,
er í raun og veru ekkert nema ljósflekkir.“ Byrjum á að hugsa okk-
ur strák sem sendur er eftir kúm í þoku og segist heimkominn hafa
séð útilegumann. Segjum að við teljum með afbrigðum ólíklegt að
útilegumaður hafi gert vart við sig á þessum slóðum, hins vegar
vitum við að þar sé girðingarstaur með gaddavírsbútum og ullar-
tjásum og svolítil mannsmynd á honum. Yið strákinn segjum við:
„Útilegumaðurinn sem þú sást er í raun og veru girðingarstaur.“
Þetta merkir að útilegumaðurinn hafi enginn verið, hann hafi ver-
ið ímyndun eða hugsmíð. Hið sama segir Símon um skynjunina:
hún sé að öðrum þræði hugsmíð.
Lítum nú betur á setninguna „Útilegumaðurinn sem þú sást er í
raun og veru girðingarstaur.“ Með henni er við það kannazt að
strákur hafi séð útilegumann. Jafnframt er því haldið fram að þarna
hafi enginn útilegumaður verið, og þar með getum við líka sagt að
strákur hafi ekki séð útilegumann: „Auðvitað sástu engan útilegu-
mann, þeir eru engir til lengur.“ Og úr því að við getum bæði játað
því og neitað að strákur hafi séð útilegumann hljótum við að skilja
sögnina „að sjá“ tvennum skilningi: við getum játað því að maður
sjái í einum skilningi þótt við neitum því að hann sjái í öðrum.
Hinum tveimur merkingum sagnarinnar getum við lýst með því að
kalla aðra hlutbundna, hina óhlutbundna. í hlutbundinni merkingu
sá strákur ekki útilegumann heldur girðingarstaur, í óhlutbundinni
merkingu sá hann ekki girðingarstaur heldur eitthvað annað.
Til frekari skýringar getum við hugsað okkur mann sem liggur á
greni. Hann miðar og skýtur. En refurinn sem hann hélt að væri er
óvart sami strákurinn að sækja kýrnar. Vitni eru leidd fyrir sýslu-
mann og segja skyttuna hafa miðað á strákinn. Skyttan þverneitar
þessu og segist hafa miðað á ref. Vitnin bera að það sé fráleitt:
þarna hafi enginn refur verið, enda ekki sézt refur á þessum slóðum
um árabil. Er nú sýslumaður tilneyddur að telja skyttuna hafa mið-
að og skotið á strákinn? Auðvitað ekki, því staðhæfingin að það
hafi hann gert er tvíræð og getur hvort heldur verið sönn eða ósönn
eftir því hvaða skilningur er í hana lagður. í hlutbundnum skilningi
miðaði skyttan ekki á ref heldur á strák, í óhlutbundnum skilningi
miðaði hún ekki á strák heldur á eitthvað annað. En hvað annað?
Slíkri spurningu má einatt svara, til að mynda fyrir dómi. Svarið