Skírnir - 01.01.1975, Page 17
SKÍRNXR ÆTTI SÁLARFRÆÐI AÐ VERA TIL 15
liti til auglitis. I rauninni er maðurinn alls ekki eins og hann sýnist
vera, heldur er hann samsettur úr örsmáum eindum á ferð og flugi.
Ef við hefðum betri sjón sæjum við þessar eindir. Páll Jónsson sem
við köllum svo er ekki annað en ógreinileg hugmynd um hinn ytri
veruleika. Hann er eins og kvikmynd: hún er í rauninni röð af fjöl-
mörgum kyrrum myndum, í rauninni er tjaldið autt meira en helm-
ing tímans sem kvikmyndasýningin stendur yfir. Þar sem er í raun-
inni röð af kyrrum myndum og löng hlé á milli sjáum við sam-
fellda kvikmynd. Eins er um Pál. Þar sem eru í rauninni síkvikar
agnir sjáum við heilan hlut sem við köllum mann.
Nú er alla vega einn galli á þessari vörn fyrir kenningu Símonar,
sambærilegur við galla sem Platón sá á vörn Prótagórasar í Þeaí-
tetosi. Hugsum okkur taugalífeðlisfræðing, einn af ótalmörgum sem
Símon gæti sótt eindarök sín til.14 Hann vinnur á rannsóknarstofu
þar sem er ógrynni mælitækja. Hann tekur til dæmis auga og sjón-
taug úr ketti, ertir sjáaldrið og beitir síðan tækjum sínuin til að
fylgjast nákvæmlega með rás viðburða í tauginni. Hann ýtir á
hnappa, horfir á mæla og hlustar eftir hljóðum úr einhverju tæk-
inu. Það sem hann sér á mælunum skrifar hann niður. Hann skoðar
í smásjár og tekur myndir í gegnum þær sem hann skoðar betur
berum augum. Af öllu þessu dregur hann ályktanir sem hann reynir
síðan að setja skipulega fram í tímaritsgrein eða bók. Og ein þess-
ara ályktana er sú sem ég leyfði mér að leggja Símoni í munn í
vörninni: í rauninni sjáum við ekkert greinilega, hlutirnir eru í
rauninni allt öðru vísi en þeir virðast vera, það sem við köllum
sjón er í rauninni sjónhverfing eins og kvikmynd er sj ónhverfing.
Hyggjum nú að. Ef við viljum vita á hvaða forsendum sagt er að
kvikmynd sé sjónhverfing, má búast við að sá sem heldur því fram
sýni okkur filmu, setji hana í sýningarvél og keyri vélina fyrst hægt
og síðan hraðar. Með þessu móti má réttlæta þá staðhæfingu að um
sjónhverfingu sé að ræða. En biðjum nú lífeðlisfræðinginn að rétt-
læta sína sjónhverfingarkenningu. Endanlega á hann ekki annarra
kosta völ en að sýna okkur taugar og tæki, kenna okkur á mælana
og þar fram eftir götunum. Hann biður okkur að beita skynfœrun-
um, einkum augunum. Endanlega grundvallast kenning hans á því
sem hann hefur séð með eigin augum á rannsóknarstofunni. Engu að
síður er kenningin sú að það sem hann sér með eigin augum sé í