Skírnir - 01.01.1975, Page 22
20
ÞORSTEINN GYLFASON
SKÍRNIR
an orðhengilshátt: þeim sé frjálst að skilja orðið ‘nám’ öðrum og
víðari skilningi en gert er í hversdagsræðu. Og segjum þeim sé það
frjálst. En því frelsi fylgir þá nokkur ábyrgð, til að mynda sú að
þeim fyrirgefist ekki að slá saman tveimur eða fleiri merkingum
orðsins. Þannig virðist það óafsakanlegt að sagt sé um svonefnd
námslögmál, sem reist eru á skilyrðingartilraunum, að þekking á
þeim sé forsenda þess að menn finni „hagkvæmar, fljótvirkar og
áhrifaríkar“ námsaðferðir, „sér í lagi í skólastarfi“, eins og Sigur-
jón Björnsson kveður að orði í Sálarfrœði sinni.20
En látum orðanotkun liggja á milli hluta og lítum heldur á dæmi
sálfræðilegra skýringa á þeim atvikum að maður eða dýr taki að
bregðast öðru vísi en áður við umhverfi sínu, þó ekki sé nema í til-
raunabúri þar sem rotta á matar völ og raflosts og annars ekki. Nú
hlasir við að rannsóknir á atferði við þvílíkar aðstæður geta þjónað
einum mikilvægum tilgangi: þær geta veitt vísbendingu um tauga-
kerfið og starfsemi þess. Þannig veitti sálfræðingurinn D. 0. Hebb
því athygli að á milli áreitis og andsvars í skilyrðingartilraunum
líður lengri tími en boð þurfa til að berast eftir taugunum sem hlut
eiga að máli. Þessi athugun varð honum tilefni til að gizka á að í
taugakerfinu væri einhver búnaður í líkingu við þann búnað í sjálf-
virku símakerfi sem heldur boði við án þess að hleypa því þegar um
rásina sem því er ætluð.21 Hér er bersýnilega um markverða tilgátu
að ræða, hvort sem hún reynist rétt eða röng. En um hana er hið
sama að segja og fyrr er sagt um tilgátur um orsakir rígskekkju og
þunglyndis: hún er lífeðlisfræðileg tilgáta en ekki sálfræðileg. Hún
gefur því tilefni til að við spyrjum sömu spurningar um sálarfræði
námsins og við spurðum áður um sálarfræði yfirleitt: geta sál-
fræðingar varpað fram ámóta markverðum sálfræðilegum tilgátum
í því skyni að skýra þau atvik að maður eða dýr tileinki sér eða taki
upp ný viðbrögð við umhverfi sínu?
Það þykjast þeir geta. Og það sem meira er: sumar þessar til-
gátur þeirra njóta þvílíkrar virðingar að þær eru ekki nefndar til-
gátur heldur lögmál. I þeirra hópi eru námslögmálin sem á er
minnzt, þar á meðal svonefnt árangurslögmál Edwards L. Thorndike
sem hljóðar svo með orðum Símonar Jóh. Agústssonar: „Ef ein-
hver aðstaða eða áreiti leiðir til andsvars, styrkjast tengsl áreitis
og andsvars, ef andsvarið nær tilætluðum árangri, en veikjast, ef