Skírnir - 01.01.1975, Page 60
58
DAVÍÐ ERLINGSSON
SKIRNIR
2
Saga af Maurhildi mannœtu, sttmdum nefnd Sagan af Kiða-Þor-
birni, er prentuð í Þjóðsögum Jóns Árnasonar eftir handriti Eben-
ezers Matthíassonar snikkara í Flatey á Breiðafirði.6 Hún er nokk-
uð löng saga í þeim skilningi að atburðirnir eru margbrotnir og
verða á löngum tíma, en í handriti Ebenezers er efninu svo þjappað
að sagan er ekki nema um þrjár blaðsíður lesmáls í útgáfunni. Af
þjöppuninni leiðir að sagan er ekki auðlesin. Lesandi þarf að fara
hægt og gætilega yfir til þess að honum hlaupist ekki yfir atriði sem
nauðsynlegt er að taka eftir, vegna þess sem á eftir kemur. Hér kem-
ur það fram sem oft má gruna um þjóðsögur sem menn hafa skrifað
á blað að beiðni safnenda: Að þær hljóti að hafa verið talsvert
lengri í eðlilegri frásögn og athygli áheyrandans ekki ofboðið með
samhleðslu atriða sem geyma þurfti í minni.
Texti Ebenezers er ekki vel hæfur til upplesturs, en hafi sagna-
fólk sagt söguna eftir minni til skemmtunar, má ætla að hún hafi
verið auðveldari að nema. í rauninni er efnisbygging sögunnar
skýr og þráðurinn auðskilinn.
Um efni sögunnar eru til rímur, sem eru nokkru eldri, og stað-
festist þessi grunur við lestur þeirra. Það eru Rímur af Kiða-Þor-
birni eftir séra Þorstein Jónsson á Dvergasteini, ortar 1790, fjórar
að tölu.7 Af Þorsteini einhverjum á Stokkseyri er reyndar til brot
af miklu eldri rímum, sem prentað er í heild hjá Jóni Þorkelssyni í
Om digtningen pa Island i det 15. og 16. arhundrede (Kdbenhavn
1888), bls. 137-139, en sjá þó einnig Björn Karel Þórólfsson, Rím-
ur fyrir 1600 (Kaupmannahöfn 1934), bls. 463-464. Sú saga viröist
ekki hafa varðveitzt í lausu máli, en um efni hennar framan til má
töluvert sjá af rímnabrotinu. Þegar frá eru talin nöfn persóna og
staðsetning (sjá 5. kafla), verður þar ekki fundið eitt einasta atriði,
sem bendi til tengsla eða skyldleika við þá sögu sem hér er rætt um.
Ályktun Jóns Þorkelssonar (og síðar Björns Karels Þórólfssonar)
um skyldleika virðist ekki styðjast við annað en nöfnin. Það er
greinilegt af upphafi sögunnar í rímnabrotinu, að um annars kon-
ar söguefni er þar að ræða en í Kiöa-Þorbjarnar sögu, enda þótt
trauðla verði fullyrt um efnið í hinum glataða hluta rímnanna. En
útlitið er allt á þá lund, að þessir tveir sögu-Þorsteinar hafi ekki átt
annað sameiginlegt en nafnið, gott atgjörvi og heimkynni á Stokks-