Skírnir - 01.01.1975, Page 64
62
DAVÍÐ ERLINGSSON
SKÍRNIR
hann gengur sjálfur í bæinn, kastar hann svuntunni til hennar með
hæfilegum ummælum og ber á hana í allra viðurvist að hún muni
eitthvað vita um sauðamannahvarfið. Mærin roðnar, en svarar
engu, og Þorbjörn þaggar þetta tal niður. I þjóðsögunni verður
hvorugt öðru sterkara í glímunni, og ekkert er þar um, að Þorsteinn
vari heimilisfólkið við tröllskap Maurhildar.
Vorið eftir festir Þorsteinn ráð sitt og fer að búa austur í Holt-
um. Þjóðsagan nefnir ekki hvar það hafi verið. Einnig leið að gift-
ingu Maurhildar, og var maður hennar prestur á Stokkseyri. Þor-
björn „felldi bollok“ sitt, lét þeim eftir búið og dvaldist hjá þeim í
elli sinni. Þessu næst er því lýst, hvernig tröllskapur Maurhildar
færist í aukana, og kemst í almæli að hún sé mannæta. Loks eru
ekki aðrir menn eftir í næsta umhverfi hennar en Þorbjörn gamli og
presturinn maður hennar, en Þorsteinn kemur ekki við söguna,
meðan mannlíf er að eyðast umhverfis forynjuna. Einhverju sinni
berst Þorsteini sú frétt, að Þorbjörn sé horfinn. Það skilur hann á
þessa lund:
Nú eru komin Kuflungs fram með öllu
heityrðin sem hann um kið
hafði forðum Þorbjörn við.
I þjóðsögunni er haldið öðruvísi á þessu efni, og minna er þar lagt
í lýsinguna á því hvernig tröllskapur Maurhildar færist smám sam-
an í aukana.
Þorsteinn átti byrðing við Þjórsárós og reri þaðan til fiskjar með
mönnum sínum. í þjóðsögunni rær hann einn, og staðurinn er ekki
nefndur. Dag einn brestur á illviðri (gerningaveður), og þá rekur
stjórnlaust þangað til þeir eru undan Eyrarbakka. Þar vill Þorsteinn
reyna lendingu, því að honum er leiðin kunnug. En þeim hlekkist á,
og allir týna lífinu nema Þorsteinn, sem bjargar sér á sundi upp í
sker. Þar finnur hann steinbúa, sem hjálpar honum. Steinbúinn lán-
ar honum nökkva sinn að fara á í land, og Þorsteinn gefur honum
hring fyrir. Sá vari fylgir nökkvanum, að „á honum kveða ekki
má“, því að þá sekkur hann. Einnig fær dvergurinn honum öxi, því
ekki muni Þorsteini veita af vopni gegn Maurhildi. A leiðinni í land
gleymir Þorsteinn varúðinni, fer að raula eitthvað, og nökkvinn
sekkur. Syndir hann nú öðru sinni og kemst upp í fjöruna. Meðan
hann er þar að hvíla sig og vinda úr fötum, kemur tunglið upp, og