Skírnir - 01.01.1975, Side 72
70
DAVÍÐ ERLINGSSON
SKÍRNIR
veg nýja ævintýrasögu, þar sem greinilegra áhrifa gætir frá forn-
sögum um sannsagnarlegt yfirbragð. Fróðlegt væri að vita, hver
þessi góði sögumaður var, en líklega verður nafn hans ókunnugt
eins og höfunda Islendingasagna. Ekki eru heldur tök á að ákveða
aldur Kiða-Þorbjarnar sögu með vissu, en hrylliefnið gæti vel bent
til 18. aldar, og væri sagan þá ekki mj ög miklu eldri en rímurnar.
6
Að vísu mun óþarft að finna fleiri rök um skyldleika AT 248 og
Kiða-Þorbjarnar sögu, en eigi að síður skal þessari athugun lokið
með því að benda á tvennt í íslenzku sögunni er skýrist af saman-
burði við dýrasöguna. Þessi atriði sýna, að Sagan af Kiða-Þorbirni
fékk þaðan ögn meira en beinagrindina eina.
1. Þorsteinn og fuglinn. Þorsteinn er sífellt að vara bróður sinn,
sem hefur þau ráð ætíð að engu. Fyrst varar Þorsteinn við drápi
kiðanna og segir að illt mundi af því leiða. Og þegar hann kemur
þar að sem Þorbjörn hefur skorið kiðin, segir hann verknaðinn vita
á illt og heldur harða viðvörunartölu yfir bróður sínum. Varanir
Þorsteins endurtaka sig síðan oft í sögunni, en aldrei gerir Þor-
steinn þó neitt sem Þorbirni verði að raunhæfu liði gegn ásókninni.
í þessum vörunum er fólgin hótun, bæði fyrir og eftir níðingsverkið
gegn skepnunum, og só hótun svarar alveg til hótana fuglsins í
dýrasögunni. Brotalömin á hlutverki Þorsteins stafar þannig af tak-
mörkunum fuglshlutverksins í dýrasögunni, sem bróðir dýraníð-
ingsins gat ekki tekið á sig nema að hálfu, og við þetta hlutverk
hefur höfundurinn ekki miklu að bæta frá sjálfum sér.
2. Lokasviðið. Loks er að benda á lokaris og lausnir beggja
sagnanna, dráp skepnuníðingsins í AT 248 og dráp Maurhildar, sem
orðið er söguhámark í Sögunni af Kiða-Þorbirni í þess stað. Á líf-
láti dýraníðingsins ber þar orðið minna en í upphaflegu sögunni.
Þrátt fyrir þetta má sjá samkenni með drápi Maurhildar og drápi
ekilsins í dýrasögunni. Þessari síðustu og kröftugustu sviðsmynd
AT 248 má lýsa þannig:
Fuglinn brýzt um í hálsi mannsins með höfuðið út úr munni
hans og hrópar hótun sína. Um leið slær kona mannsins það
högg, sem ætlað er fuglinum, en verður manninum að bana í
staðinn.